154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[12:56]
Horfa

Flm. (Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessi ummæli. Ég vil þó árétta það að ég tel mikilvægt að Alþingi hafi unnið undirbúningsvinnuna að því sem felst í að lögleiða svo stórt mál eins og dánaraðstoð er, að hafa óskað eftir skýrslum og skoðanakönnunum svo að við séum ekki að kasta okkur beint út í eitthvað þar sem við hefðum engan fyrirsjáanleika um hvernig ætti að vera. Varðandi eftirlit þá byggir þetta frumvarp á hollenskri löggjöf og eftirliti í Hollandi er háttað svo gott sem með sama hætti og lagt er til í þessu frumvarpi. Síðan Holland lögleiddi dánaraðstoð árið 2002, lögin tóku gildi árið 2002, hafa örfá vafamál komi upp og nefndin hefur þá gripið þau. Þau eru, ef mig minnir rétt, frú forseti, fimm talsins. Við erum að tala um örfá vafamál af öllum þeim málum. Ég tel að það sé mikilvægt að eftirlitsnefndin hafi þá verið til staðar einmitt til þess að mál yrðu aldrei vafamál af því að fólk vissi af tilvist eftirlitsnefndarinnar. Árangurinn af því að hafa slíka nefnd í Hollandi hefur verið sá að lögin hafa verið endurskoðuð og hefur leitt til þess að þeir vankantar sem hafa verið á framkvæmdinni — það hefur þá verið skerpt á framkvæmdinni þar en þeir hafa ekki verið ofboðslega miklir. En í frumvarpi þessu sem lagt er hér fram ætti ekki að bera á þeim vanköntum sem t.d. Holland hefur rekið sig á eftir að þau leiddu í lög dánaraðstoð.