154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[13:00]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu sína og óska henni til hamingju með sitt fyrsta mál hér á Alþingi. Ég er í stuttu máli sammála hugsuninni í þessu frumvarpi. Í kjarnanum liggur kannski spurningin: Ef maður hefur ekki tök á að ráða því hvort maður fæðist, ætti maður samt ekki að fá eitthvað um það að segja hvort og þá hvernig maður deyr?

Í þessu liggur mikil frelsishugsun en öllu frelsi fylgir mikil ábyrgð sem verður að leiða hugann að. Ég held að það sé þó nokkur stuðningur við þessa hugsun á þingi, sem er vel, enda hef ég og nokkrir aðrir stutt þingsályktunartillögu Bryndísar Haraldsdóttur sem er um sambærilegt efni að öðru leyti en því að í þingsályktuninni er heilbrigðisráðherra falið að taka utan um málið og setja af stað vinnu, því að eins og hefur komið fram í þessum umræðum hér þá eru vinklar á málinu sem krefjast mjög mikillar yfirlegu og yfirvegaðrar skoðunar og nálgunar varðandi hluti eins og eftirlit, vilja lækna til að standa að slíku o.s.frv. Ég ætla kannski að leyfa mér að segja hér að ég vona að þrátt fyrir að hér komi fram nýtt samhljóða frumvarp sem kveður ekki á um samstarf við ráðherra verði málinu ekki dreift þannig á dreif að verið sé að vinna það á nokkrum stöðum í einu, að það bitni á málinu sjálfu sem ég tel mikilvægt. En gott og vel, mig langaði þá kannski bara að fá að spyrja varðandi áhyggjur af þrýstingi frá ættingjum og hvernig þingmaðurinn sér það.