154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[13:05]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég fæ þá bara að endurtaka að alla jafna er það kannski betra þegar um mikilvæg mál er að ræða að þau séu kannski sem mest á einum stað og fólk sem er þeim málum sammála geti þá flykkt sér að baki þeim málum og veitt þeim stuðning þannig í staðinn fyrir að verið sé að vinna þau á svo mörgum stöðum í kerfinu. En gott og vel. Þetta frumvarp liggur fyrir og það sýnir bara vonandi að það er áhugi og stuðningur fyrir þessum sjónarmiðum hér á Alþingi. Ég leyfi mér þó að ítreka að ég held að þetta mál sé þannig vaxið að það sé líklegra til árangurs og til að verða að veruleika ef það er unnið með viðkomandi ráðherra þar sem það er í mörg snúin horn að líta og viðkvæm. Ég þakka fyrir svarið varðandi þrýstinginn en ég held að þetta sé eitthvað sem verður að skoða. Við megum ekki vanmeta mögulegan þrýsting eftirlifenda á að einhver kveðji fyrr en hann kannski langaði.