154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[13:13]
Horfa

Flm. (Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt innlegg í þessa mikilvægu umræðu og fagna því að hún styðji efnistök þessa frumvarps. Mér þykir þó miður að heyra að henni þyki ekki tímabært að leggja slíkt mál fram. Það er oft þannig með þessi mál sem mætti kalla frelsismál að fólki finnst þau stundum ekki tímabær vegna viðhorfa í samfélaginu. Eins og ég nefndi hér áðan eru viðhorf lækna sífellt að verða jákvæðari og jákvæðari, en ef við horfum líka til almennings og hugsum þetta út frá réttindum sjúklinga til að óska eftir dánaraðstoð eru þau viðhorf einnig mun jákvæðari. En mikilvægt er að impra á því að hér erum við að tala um að opna á möguleikann að fólki sé heimilt að veita dánaraðstoð og óska hennar, en ekki er þar með sagt að þá verði þriðjungur lækna að veita þessa þjónustu.

Mér þykir tímabært að við lögleiðum dánaraðstoð. Félagið Lífsvirðing hefur verið til í sjö ár. Holland hefur haft þetta í lögum sínum í 22 ár og Sviss í næstum því 90 ár. Hér erum við að bregðast við ákalli og breyttri samfélagsmynd og mér þykir miður ef löggjafinn á alltaf að vera eftirbátur samfélagsviðhorfa þegar kemur að lagasetningu. Varðandi þá hluti sem skoða þyrfti betur í nefnd þá tek ég undir það og hlakka til að fylgjast með nefndarvinnunni varðandi þetta frumvarp, þá kannski sérstaklega með það að hafa meira valfrelsi um það á hvaða stöðum dánaraðstoð er veitt, svo lengi sem það er ekki á stöðum þar sem slíkt væri með öllu óviðeigandi.