154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[13:18]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Nei, ég hef ekki skoðað viðbrögð Læknafélagsins við þungunarrofi þegar það var lögfest 1975, en ég veit til þess að félagið sendi umsögn þegar lögum um þungunarrof var breytt á síðasta kjörtímabili þegar við hækkuðum þetta upp í 22 vikur. Þau komu upphaflega með umsögn á þá leið að þau væru ósammála en drógu hana síðan til baka. Skoðanir þeirra eru margs konar, enda eru læknarnir náttúrulega ekki allir á sömu skoðun. Hópurinn er mjög fjölbreyttur og hefur mismunandi skoðanir. Ég tel þó langeðlilegast að Læknafélagið komi með opinbera afstöðu í þessu máli og ef staðan verður sú að félagið komi með jákvæða umsögn fyrir nefndina í þessu máli þá mun ég telja það tímabært að leggja þetta fram. En ég hef ekki enn séð neina umsögn frá þeim eða neina opinbera afstöðu gagnvart dánaraðstoð nýverið og því tel ég að þetta sé ekki tímabært þó að ég styðji lögfestingu dánaraðstoðar.