154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[13:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er mér ánægja að mæla fyrir skýrslu um framkvæmd EES-samningsins á liðnu ári sem lögð er fram í samræmi við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Þetta er í fjórða sinn sem skýrslu af þessu tagi er lögð fram. Árleg skýrslugjöf í þessum efnum var jákvætt og mikilvægt skref, ekki síst þar sem hún veitir tækifæri til að ræða þetta mikilvæga samstarf sem er grundvallarmál þegar kemur að hagsæld á Íslandi. EES-samstarfið tekur stöðugum breytingum í takt við þróun innri markaðarins. Þess vegna þurfum við stöðugt að vera á varðbergi fyrir tengslum þess við hagsmuni okkar á hverjum tíma. Það á ekki síst við um okkur sem sitjum á Alþingi og þar gegna utanríkismálanefnd og þingmannanefnd EFTA lykilhlutverkum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þinginu fyrir ötult starf við framkvæmd EES-samningsins. Þó að ekki sé hægt að fullyrða að við séum öll á einu máli um Evrópumálin er ég nokkuð viss um að við erum ágætlega einhuga um okkar sameiginlega verkefni, þ.e. að verja og sækja fram með hagsmuni Íslands í EES-samstarfinu að leiðarljósi til hagsbóta fyrir land og þjóð.

Skýrslan sem við ræðum hér fjallar um helstu mál á vettvangi EES frá miðju ári 2022 fram á mitt ár 2023. Meginniðurstaða hennar er að framkvæmd EES-samningsins hafi almennt miðað vel. Tekist hefur að auka skilvirkni í hagsmunagæslu á fyrri stigum. Þá hefur þeim EES-gerðum fækkað sem beðið hafa upptöku í samninginn. Hins vegar er visst áhyggjuefni að meira er um tafir á innleiðingu gerða í landsrétt. Það er grundvallaratriði að stjórnvöld leggi tímanlega fram frumvörp svo þau geti fengið eðlilega og fullnægjandi afgreiðslu hér í þinginu. Það má aldrei líta á hina þinglegu meðferð þó eingöngu sem einhvers konar stimplun. Það er viðvarandi verkefni að tryggja skipulega og skilvirka framkvæmd samningsins og hér í skýrslunni er rakið hvernig Stjórnarráðið er sífellt að leita leiða til þess með bættu skipulagi, betra samráði og meira samstarfi.

Virðulegi forseti. Í umræðu um EES-málin í þinginu fyrir ári síðan gerði þáverandi utanríkisráðherra grein fyrir tveimur málum í deiglunni sem bæði hafa verið leidd til lykta. Samkomulag náðist í maí síðastliðinn í flugmálinu svokallaða, sem varðar breytingar á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir í flugi, hinu svokallaða ETS-kerfi sem bæði Ísland og Noregur eiga aðild að. Eins og áður hefur verið gert grein fyrir tókst þar að tryggja viðunandi sérlausn sem byggist á sérstöðu Íslands sem tryggir að samkeppnisskilyrði í tengiflugi um Ísland verða óröskuð. Niðurstaðan í flugmálinu er þannig gott dæmi um hvernig vönduð, markviss og samhent hagsmunagæsla getur skilað þeim árangri sem að er stefnt. Um leið vil ég taka skýrt fram að við þurfum áfram að vera á tánum í flugmálunum, því eigi síðar en á árinu 2026 verða áhrif breytinganna metin. Þar mun skipta sköpum að í samkomulagi sem náðist í maí síðastliðinn er sérstaða Íslands viðurkennd með skýrum hætti.

Áður hafa komið upp snúin mál við upptöku löggjafar ESB í EES-samninginn og fleiri eiga eflaust eftir að koma fram. Þá er verkefnið eftir sem áður að koma auga á vandræðin í tæka tíð, greina áhrif þeirra, móta afstöðu Íslands, koma henni skilmerkilega á framfæri og leita leiða til að leysa vandann. Virk hagsmunagæsla er á okkar eigin ábyrgð og engra annarra. En ríkur skilningur samstarfsþjóða okkar í þessum efnum er sömuleiðis afar mikilvægur og í þessu sambandi vil ég lýsa ánægju minni með að atvinnulífið íhugi að styrkja hagsmunagæslu sína í Brussel og að Alþingi hafi til skoðunar að hafa þar starfsmann til að byggja upp þekkingu og tengsl, þar með talið við Evrópuþingið. Þörfin á brúarsmíði er viðvarandi og því skiptir máli að vera vel mönnuð í Brussel og þar verði áfram fulltrúar frá öllum ráðuneytum og við sendiráðið.

Samningar um næsta starfstímabil uppbyggingarsjóðs EES tókust einnig í lok nóvember síðastliðinn. Það er tímanna tákn að hluti framlags okkar á næsta tímabili skuli renna til verkefna í samstarfsríkjunum sem tengjast Úkraínu. Það er einnig afar jákvætt að áætlanir og verkefni á vegum sjóðsins stuðli nú í auknum mæli að tvíhliða samstarfi við íslenskar stofnanir og fyrirtæki og efli samstarf við viðtökuríkin á ýmsum sérsviðum okkar Íslendinga. Það er mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut.

Í tengslum við viðræðurnar um uppbyggingarsjóðinn náðist einnig hagfelld niðurstaða um tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir sjávarafurðir frá Íslandi inn á markaði Evrópusambandsins. Samið var um 15.000 tonna árlega tollfrjálsa innflutningskvóta og breiðari samsetningu afurða í tollkvótum eða átta mismunandi tollkvóta fyrir samtals 52 afurðir, sem er margfalt meira en áður. Þetta er afar jákvætt og gefur mun betri möguleika á nýtingu tollkvótanna. Ég er sannfærður um að þessi niðurstaða muni skapa íslenskum fiskútflytjendum mun meiri sveigjanleika en áður var.

Þessi bætti markaðsaðgangur breytir þó ekki heildarmyndinni og enn er lag að bæta aðgang okkar að mörkuðum Evrópusambandsríkja. Því var mikilvægt skref að nú hafi verið ákveðið að ráðast í heildstæða endurskoðun á viðskiptakjörum Íslands og Evrópusambandsins en stefnt er að því að þeim viðræðum verði lokið á samningstímabilinu þannig að við höfum núna nokkur ár fyrir framan okkur. Þetta er í fyrsta skipti frá upphafi EES-samstarfsins sem ESB fellst á slíka heildarendurskoðun. Með þessu verður til formlegur vettvangur til að ræða við Evrópusambandið um viðskiptakjör, þar með talið um greiðari aðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir. Í þessu felast ótvíræð sóknarfæri sem við skulum nýta okkur. Við höfum lengi bent á að það veki spurningar, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríki utan EES hafi betri viðskiptakjör fyrir sjávarafurðir inn á innri markaðinn heldur en við Íslendingar sem erum hluti af EES. Í þessari endurskoðunarvinnu sem getur farið fram á næstu árum munum við geta rætt það milliliðalaust við framkvæmdastjórn ESB og stefnum við á að það samtal verði hafið síðar á árinu.

Virðulegi forseti. Í ár eru 30 ár liðin frá því að EES-samningurinn tók gildi og ég vil nýta þetta tækifæri til að segja nokkur orð um þýðingu hans fyrir þróun íslensks samfélags á þessum tíma. EES-samningurinn er ótvírætt mikilvægasti viðskiptasamningur okkar Íslendinga því að hann tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að og jöfn samkeppnisskilyrði á okkar stærstu og mikilvægustu mörkuðum. Það er óumdeilt að fjórfrelsið svokallaða, með tilheyrandi tækifærum til búsetu, viðskipta, fjárfestinga og frjálsrar farar, hefur verið meðal helstu drifkrafta framúrskarandi lífskjara okkar Íslendinga á síðustu þremur áratugum. Ávinningurinn af EES hefur þannig verið ótvíræður. Hann birtist okkur á hverjum degi í því að íslensk fyrirtæki geta greiðlega flutt vörur sínar og þjónustu til Evrópu og sparað sér fjármuni og tíma með því að á öllum innri markaðnum gilda sömu viðmið. Slíkur aðgangur að innri markaði Evrópu, heimamarkaði með rúmlega 450 milljónir íbúa og 23 milljónir fyrirtækja í 30 ríkjum, hefur skilað miklum efnahagslegum ávinningi fyrir Ísland.

Fyrir nokkrum vikum kom út skýrsla sem norska alþjóðamálastofnunin NUPI vann fyrir samtök atvinnulífsins í Noregi en í henni er lagt mat á efnahagslegan ávinning EES. Það kemur fram að m.a. megi rekja í kringum 2–6% af kaupmætti í Noregi til innri markaðarins. Það er sannarlega mikil búbót og það má leiða líkur að því að hér sé ávinningurinn síst minni. Margt er líkt með skyldum, segir máltækið, og ég held að það færi ágætlega á því ef við myndum ráðast í sams konar skýrslugerð hér á Íslandi þar sem reiknaði yrði með sambærilegum hætti hver efnahagslegur ávinningur EES-samstarfsins er.

EES hefur líka fært almennum borgurum margvísleg tækifæri og réttindi allt frá sjúkratryggingum á ferðalögum, lækkun reikigjalda og þar með símakostnaðar erlendis að ógleymdum fjölda tækifæra til náms og starfs erlendis. Þetta þekkjum við öll og göngum að sem gefnu, þar með taldar þær kynslóðir Íslendinga sem fæddar eru eftir 1994 eða rétt um 160.000 manns samkvæmt tölum Hagstofunnar sem þekkja ekki annað en Ísland innan EES.

Síðast en ekki síst nýtur Ísland góðs af virkri þátttöku í evrópskum samstarfsáætlunum. Við tökum nú þátt í 12 samstarfsáætlunum og í gegnum þær hefur íslenskt vísindasamfélag, fyrirtæki, menntastofnanir og menningarlíf fengið töluvert meira úthlutað úr áætlunum heldur en við leggjum til þeirra að ónefndri þeirri þekkingu og tengslum sem verða til í gegnum samstarfið sem erfitt er að meta til fjár. Það hvað okkur farnast vel í þessu umhverfi samkeppnissjóða segir líka sögu um samkeppnishæfni samfélags okkar í heild sinni vegna þess að þetta eru sannkallaðir samkeppnissjóðir og það er ekki úthlutað eftir höfðatölu eða stærð hagkerfis. Það er úthlutað eftir því hversu góð verkefnin eru sem sótt er um styrk vegna. Við getum því slegið okkur á brjóst fyrir það að hafa átt öfluga vísindamenn, svo dæmi sé tekið, í háskólasamfélagi okkar sem hafa fengið úthlutað styrkjum.

Um þetta má lesa í þeirri skýrslu sem ég er með hér til umræðu og í því samhengi sem ég var hér síðast að rekja vil ég sérstaklega vekja athygli á mynd á bls. 5. Ég vil nota þetta tækifæri og hrósa þeirri elju og útsjónarsemi sem starfsfólk Rannís og fjölmargt fólk um allt land sem kemur að þessu hefur sýnt í gegnum árin. Þessi vinna er gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið okkar allt.

Nýverið bættist við aðildin að InvestEU-áætluninni sem háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti í byrjun árs. Áætlunin veitir íslenskum fyrirtækjum aðgang að 26 milljarða evra ábyrgðasjóði með sérstakri áherslu á stuðning við fyrirtæki í nýsköpun og nýrri tækni, sjálfbærri uppbyggingu innviða og verkefnum í þágu loftslagsmála. Ég er ekki í nokkrum vafa um að stofnanir, fyrirtæki og frumkvöðlar geti nýtt sér þessi tækifæri rétt eins og Ísland hefur til þessa notið mjög góðs af Horizon Europe, Erasmus+ eins og það heitir, sem 40.000 manns hafa nýtt sér frá því samningurinn tók gildi og Creative Europe-samstarfinu, svo dæmi séu nefnd. Ég nota hér ensku hugtökin, með leyfi forseta.

Virðulegi forseti. Ég vil nú víkja nokkrum orðum að þeim viðsjám sem uppi eru á alþjóðavettvangi. Sem opið og útflutningsdrifið hagkerfi er Ísland síður en svo eyland í efnahagsmálum, ekki frekar en í öryggis- og varnarmálum. Við erum háð því hvernig vindar blása í löndunum í kringum okkur og um víða veröld og því miður blæs ekki byrlega. Líkt og aðrir þurfum við að huga að efnahagslegu öryggi okkar. Innrásarstríðið í Úkraínu og átök fyrir botni Miðjarðarhafs með tilheyrandi hörmungum fyrir almenna borgara hafa aukið mjög á spennu í alþjóðaöryggismálum með margvíslegum neikvæðum áhrifum á hið samofna efnahagslíf heims. Þetta hefur m.a. birst í orkuskorti og verðbólguþrýstingi. Tekist er á um grundvallarþætti alþjóðakerfisins, virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum sem um þessar mundir virðast eiga í vök að verjast. Þessu tengist vaxandi einangrunar- og verndarhyggja í alþjóðaviðskiptum samhliða því sem við höfum séð gerast víða, sem er skautun stjórnmálanna. Ríki eru nú þegar byrjuð að gæta að hagvörnum sínum, svo sem með því að huga að öryggi aðfangakeðja og þau eru í auknum mæli meðvituð um hættuna af því að frjáls milliríkjaviðskipti umbreytist í pólitískt vogarafl. Þar eru samstarfsþjóðir okkar í EES engin undantekning.

Við aðstæður sem þessar er mikilvægt að vera með trausta fótfestu. Það höfum við Íslendingar sem betur fer í gegnum þátttöku okkar í innri markaði Evrópu, bæði hvað varðar aðföng og útflutning. Þátttaka í innri markaðnum og styrk staða á honum er þannig mikilvægur liður í hagvörnum okkar Íslendinga. Það fundum við best meðan faraldurinn geisaði og þátttaka í innri markaðnum tryggði okkur, svo dæmi sé nefnt, aðgang að bóluefni á sama tíma og í sama umfangi og annars staðar í Evrópu. Stjórnvöld vinna nú einmitt að því að tryggja aðgang að heilbrigðissamstarfi ESB á breiðari grunni til að styrkja stöðu okkar gegn heilsuvá framtíðarinnar. Þá er einnig unnið að því að tryggja þátttöku Íslands í samstarfsáætlun um að koma á öruggum fjarskiptum um gervihnött. Hvoru tveggja eru þættir sem munu stuðla að almannaöryggi.

Með því að rækta samstarfið við önnur EES-ríki er ég ekki að segja að íslensk fyrirtæki geti ekki átt viðskipti um víða veröld því það eiga þau svo sannarlega að gera. Viðskiptalífið sjálft er vitaskuld best til þess fallið að finna út úr því hvar tækifærin liggja og hvernig best sé að nýta þau. En það skiptir máli að hafa trausta kjölfestu í utanríkisviðskiptum við önnur lýðræðisríki sem deila með okkur grundvallargildum. Það að hafa slíka trausta fótfestu eykur fyrirsjáanleika og treystir stöðugleika. Það skiptir máli á óvissutímum en það skiptir líka máli á friðartímum að geta gert langtímaáætlanir en kannski enn frekar þegar ákveðnir óvissutímar eru uppi, eins og ég hef hér verið að rekja. Þetta er ein ástæða þess að EES-samningurinn er þýðingarmikill.

Virðulegi forseti. Í máli mínu hefur mér verið tíðrætt um hagsmunagæslu en í EES-samstarfinu er mikilvægt að halda uppi öflugri hagsmunagæslu fyrir Ísland. Þar skiptir máli að spila bæði vörn og sókn. Stundum felast hagsmunir okkar í því að verjast því sem óhentugt kann að vera íslenskum aðstæðum eins og rakið er í skýrslunni. Þá þarf að greina það sem mestu skiptir snemma og mæta því af krafti og ákveðni. Hér hefur forgangslisti stjórnvalda vegna hagsmunagæslu í EES-samstarfinu reynst gott tæki og um leið mikilvægt leiðarljós stjórnvalda, ekki síst útvörðum okkar í Brussel. Ég lýsi jafnframt sérstakri ánægju með að öll ráðuneytin eiga nú fulltrúa þar sem taka virkan þátt í að gæta hagsmuna okkar af þrautseigju.

Á sama tíma eigum við óhikað að sækja fram á þeim sviðum þar sem Ísland sér tækifæri. Sagan sýnir að Ísland hefur mikið fram að færa í Evrópusamstarfinu og það endurspeglast m.a. í góðum árangri íslenskra umsókna í evrópskum samkeppnissjóðum eins og ég minntist á áðan. Þannig að þegar ný tækifæri opnast eigum við að vera vakandi og sjá til þess að þau séu gripin og við séum tilbúin. Þetta höfum við gert með ágætum árangri í 30 ár, líka í gegnum aðild okkar að EFTA og þá fríverslunarsamninga sem þar eru gerðir.

Vegna þess að í ár minnumst við 30 ára afmælis EES vil ég að lokum segja að ég tel fulla ástæðu til að nýta afmælisárið til þess að efla málefnalega umræðu um EES-málin. Við erum oft upptekin af einstökum málum sem upp koma í EES-samstarfinu og hnökrarnir eiga það til að fá mjög mikla athygli, jafnvel þannig að vegna vandamála sem tengjast einstökum innleiðingum þá falla orð sem gefa til kynna að menn vilji bara losna við samstarfið í heild sinni. Þetta er allt saman hluti af eðlilegum og heilbrigðum skoðanaskiptum og ef við getum með málefnalegum hætti skipst á skoðunum þá er ég alveg viss um að við munum færa okkur áfram veginn með jákvæðum hætti. Það verður að gæta þess að í heild sinni sé umræðan um kosti og galla EES-samningsins tekin af einhverri yfirvegun, jafnvel þótt við ætlum að sýna festu og ákveðni við einstök innleiðingarmál. Það þarf til að mynda að vanda vel til verka við innleiðingu EES-reglna svo að þær leggi ekki meiri byrðar á herðar almennings og fyrirtækja en gerist annars staðar og þá er kannski ekki síst verið að vísað til umræðna sem hefur verið lifandi í vetur um gagnsæi, hversu mikilvægt gagnsæi er gagnvart þinginu. Það þarf að vera skýrt hvað leiðir af aðild okkar að EES og hvað er í raun og veru heimasmíðað þegar svo ber undir.

Í þessu samhengi skipaði ég nýlega starfshóp gegn því sem kallað hefur verið gullhúðun EES-reglna þó að mér þyki öllu réttara að nota annað hugtak sem skotið var að mér um fyrirbærið. Það er eiginlega réttara að tala um blýhúðun vegna þess að þetta eru tilraunir eða tilhneiging stjórnkerfisins til að gera regluverkið þyngra heldur en efni standa til. En alvarlegast er, eins og ég sagði áðan, þegar um það ríkir ekki fullt gagnsæi. Við getum með opin augun metið hagsmuni okkar þannig að það sé ástæða til að ganga lengra í einstaka tilvikum og þá þurfum við bara að hafa það alveg á hreinu að þetta leiðir ekki beint af innleiðingunni. Þessi hópur sem ég kom á fót hefur skýrt erindi, er vel mannaður og ég hef væntingar til þeirrar vinnu og vonandi sjáum við það innan fárra mánaða.

Hér allra síðast vil ég segja að við eigum ávallt að hafa í huga þessa heildarmynd. Hún er sú að í Evrópu er eftir sem áður að finna trausta kjölfestumarkaði Íslands. EES-samningurinn myndar góðan grunn fyrir íslenskan útflutning og samstarf við bandalags- og vinaþjóðir er hreinlega ómetanlegt á óróatímum. Ég veit að hér mun fara fram góð og málefnaleg umræða eins og undanfarin ár.