154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[13:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir prýðilega yfirferð og draga fram mikilvægi þessa samnings, mikilvægasta viðskiptasamnings sem Ísland hefur gert, aukið tvímælalaust hagsæld þjóðarinnar og lífsgæði hér á Íslandi. Þess þá heldur má að mínu mati ekki vera hökt á því að verja þennan mikilvæga samning. Við sáum á líftíma þessarar ríkisstjórnar að það varð eitt hökt, það var varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans sem allir hafa síðan séð að fól ekki í sér neina stórhættu. Sá hnútur, þegar ríkisstjórnin setti málið fram, leystist í rauninni ekki fyrr en m.a. Viðreisn og Samfylking lýstu því yfir að við myndum styðja málið og þá losnaði um málið. Ég spáði því þá að innan tíðar kæmi nýtt mál sem myndi leiða til þess að við stæðum frammi fyrir því að verja EES-samninginn og það er eitt þannig akkúrat í dag, það er bókun 35.

Í fyrra fengum við frumvarp frá fyrrverandi utanríkisráðherra og það var ljómandi vel rökstutt. Núverandi utanríkisráðherra setti fram skýrslu og það er gott og vel. Við vorum í gær með umfjöllun um nákvæmlega skýrsluna. Þá kemur alveg skýrt fram um þetta mál sem hefur verið í ferli í rauninni frá 2011, sérfræðingar 2018 hafa sagt alveg skýrt að við værum ekki að innleiða bókun 35 með réttum hætti, og nú bregður svo við að Hæstiréttur segir alveg skýrt og sagði það í síðustu viku frekar en fyrir tveimur vikum að bókunin væri ekki rétt innleidd. Bókunin felur í sér, leiðinlegt orð, að réttindi Íslendingar skuli varin, að stjórnvöld beri ábyrgð á því að innleiða réttinn samkvæmt EES til að passa einstaklingana þannig að þeir öðlist sama rétt hér heima á Íslandi eins og annars staðar í Evrópu. Þetta er mikil réttarbót fyrir okkur Íslendinga en Hæstiréttur er búinn að segja að hún hafi ekki verið rétt innleidd. Þess vegna spyr ég: Nú hefur Hæstiréttur talað. Af hverju eigum við að bíða eftir því að erlendir dómstólar segi okkur fyrir? Af hverju förum við ekki strax í það að ræða hér frumvarp og samþykkja? Og þess vegna er önnur spurning mín: (Forseti hringir.) Mun hæstv. ráðherra bara innan tíðar leggja fram frumvarp sem felur í sér að við löggildum réttilega og innleiðum réttilega bókun 35?