154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir) (V) (andsvar):

Forseti. Þetta er alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Mér finnst mikilvægt að koma því að í umræðunni að í Kanada og á Nýja-Sjálandi eru sérstök ákvæði í lögum sem heimila dánaraðstoð þegar um andleg veikindi er að ræða. Slíkt er ekki lagt til í þessu frumvarpi. Telji nefndin hins vegar að það sem er lagt til með orðalagi þessu sé of vítt til túlkunar og andlegir sjúkdómar gætu fallið þar undir, sér í lagi í ljósi þeirra umsagna sem vonandi berast frá sérfræðingum um andlegt heilbrigði, þá fagna ég því að sjálfsögðu ef það yrði umorðað til að slíkt rúmist ekki innan laganna. Þegar við erum að tala um andleg veikindi þá er það allt annars eðlis heldur en t.d. einstaklingur með langt gengið krabbamein sem á sér enga lífsvon og þar að auki er sárþjáður. Þess vegna tel ég mikilvægt að við skoðum þetta til hlítar og ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu. Og þegar kemur að fötluðum einstaklingum þá vil ég bara impra á því að við þurfum að passa að frumvarpið fari þannig út úr nefnd að við séum ekki að búast við því að dánaraðstoð verði eitthvað sérstaklega í meira mæli hjá fötluðu fólki en öðru fólki og það er ofboðslega mikilvægt að halda því til haga. Ég trúi því ekki að frumvarpið, eins og það er orðað nú, bjóði endilega upp á þann möguleika en það er eitthvað sem við þurfum að hafa hugfast þegar frumvarpið verður tekið til nefndar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt ávarp.