154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

fjármögnun kjarasamninga.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmanni er alveg óhætt að óska mér til hamingju með að búið sé að ná langtímakjarasamningum við aðila vinnumarkaðarins á Íslandi til fjögurra ára, sem er mjög sjaldgæft. Ég vona að þetta sé nýr grunnur og nýtt upphaf að því hvernig aðilar vinnumarkaðarins ná saman. Hins vegar er það alveg skýrt og var frá upphafi að til þess að þeir aðilar gætu gert það var gerð rík krafa á stjórnvöld um að koma með stórar aðgerðir og mikla fjármuni til þess að hægt væri að ná saman. Það er það sem við gerðum. Við erum núna að vinna fjármálaáætlun. Sú vinna er flókin en gengur ágætlega. Við erum með uppfærðar áætlanir sem hjálpa okkur að átta okkur á stöðunni eins og hún er núna, sem hefur breyst frá því fyrir jól. Svo þarf að taka ákvarðanir sem svara því hvernig þessari forgangsröðun er mætt. Er það gert með því að auka á hallann eingöngu? Nei. Er það gert með því að hækka alls konar skatta á sömu hópa og voru að ná saman í kjaraviðræðum til næstu fjögurra ára? Nei. Er hægt að fara í aðgerðir til að spara í kerfinu? Já, ég lít svo á að við séum með þessari forgangsröðun í þágu fjölskyldna, í þágu fjögurra ára friðar á vinnumarkaði, að taka ákvörðun um að setja það í forgang á kostnað kerfis. Ég hef sagt skýrt að ég er ekki að tala fyrir sársaukafullum niðurskurði, enda þarf hann ekki að vera sársaukafullur vegna þess að það eru gríðarlega mikil tækifæri til að fara betur með almannafé. Það er verkefnið. Ég hef verið algerlega skýr með það að ég er ekki að fara að leggja til að hækka skatta á millitekjuhópa. Þetta er verkefnið og ég treysti mér í það.