154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

lögbrot og eftirlit á innri landamærum.

[15:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil líka þakka lögreglunni fyrir sín störf og viðurkenni það að þeir eru allt of fáliðaðir og þeir vildu gera svo miklu mun betur. Það sem varð þess valdandi að það skyldi vera farið að skoða þetta meinta mansalsmál sem um er rætt, var úldinn matarlager sem við vorum að éta á veitingastöðunum hans, það er nú frekar óhugnanlegt.

Þegar hæstv. ráðherra segist ekki vilja ræða einstök mál þá erum við ekki að tala um nein nöfn á einum eða neinum heldur erum við að tala um það sem almennt er þekkt og vitað og um skrifað í samfélaginu og eitthvað sem er á hvers manns tungu og á hvers manns vörum. Það er í rauninni ekkert sem maður á að vera feiminn við þegar maður er að tjá sig um slíkt.

Það er líka annað. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í sambandi við innri landamærin? Erum við eitthvað að fara að gera til að koma í veg fyrir að fólk komi hér ítrekað þrátt fyrir nálgunarbann og þrátt fyrir að það sé jafnvel með bann inni á sjálfu Schengen-svæðinu? (Forseti hringir.) Erum við að fara að gera eitthvað í sambandi við innri landamærin? Er hæstv. dómsmálaráðherra tilbúinn í að við tökum utan um innri landamærin okkar sjálf, (Forseti hringir.) fram hjá öllu sem heitir Schengen og verðum með undanþágu gagnvart því eins og mörg önnur lönd í Evrópu er nú þegar að gera?