154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[15:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að taka vel í ósk mína um þessa sérstöku umræðu um fíknisjúkdóminn. Ég var hér með fimm punkta sem ég lagði út frá sem ég sendi ráðherranum.

Í fyrsta lagi: Hvaða úrræði, ef einhver, standa einstaklingum til boða af hendi íslenska heilbrigðiskerfisins eftir að þeir hafa lokið meðferð, hvort heldur sem um skammtíma- eða langtímameðferð er að ræða? Telur heilbrigðisráðherra að fíknisjúkdómurinn sé viðurkenndur sem sjúkdómur sem skilyrðislaust skuli heyra undir íslenska heilbrigðiskerfið? Hefur heilbrigðisráðherra gripið til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að einstaklingar með fíknisjúkdóma deyi ótímabærum dauða á meðan þeir eru á biðlista eftir viðeigandi heilbrigðisþjónustu? Megum við búast við nauðsynlegum aðgerðum frá heilbrigðisráðherra sem óefað munu draga úr dauðsföllum vegna fíknisjúkdómsins? Ef já, hverjar eru þá þær aðgerðir? Og síðast en ekki síst: Hvaða forvarnir, ef einhverjar, eru á borði heilbrigðisráðherra þar sem markmiðið er að koma í veg fyrir ótímabæran dauða ungmenna?

Allir þessir punktar sem ég hef talið upp hér snúa í rauninni að þeirri sorg og því ófremdarástandi sem ríkir í heilbrigðiskerfinu vegna fíknisjúkdómsins. Við vitum um hátt í 100 einstaklinga sem deyja árlega af völdum þessa sjúkdóms. Við vitum um orsakasamhengi, orsakatengsl við mýmörg önnur dauðsföll þar sem einstaklingurinn er skráður látinn af einhverjum öðrum orsökum en af völdum neyslu, en samt sem áður eru líkurnar miklum mun meiri að raunverulega hafi það verið orsökin fyrir dauðsfallinu.

Við veltum fyrir okkur ítrekað ef t.d. 100 einstaklingar létust á ári í bílslysum, í hvaða neyðarhemla ríkisvaldið myndi grípa til þess að sporna gegn slíkum dauðsföllum. Hvað er það sem verður þess valdandi að yfir 700 einstaklingar eru á biðlista eftir hjálp inni á sjúkrahúsum vegna veikinda sinna? Hvað er það sem verður þess valdandi að fárveikt fólk sem er búið að leggja það á sig mánuðum saman að leita sér hjálpar — það hefur komist í meðferð, það lagt það á sig að fara í langtímameðferð, það er gjörsamlega að bugast, það leggur það á sig að vera burtu mánuðum saman í meðferð. Það kemur bjartsýnt og brosandi út í samfélag sem því miður virðist vera þannig úr garði gert að það er ekkert utanumhald nema utan um örfáa. Það eru til úrræði en bara allt, allt of fá úrræði fyrir svo allt of marga. Hver eru fórnarlömbin? Allt niður í 17 ára ungmenni sem hafa dáið hér af eitruðum efnum sem þau hafa fengið hér á markaðnum. Það er einhvern veginn eins og það sé allt flæðandi hér í eitri. Nú fer kókaínfaraldur vaxandi. Það er varla nokkur maður með mönnum niður í 14 ára aldur, heyri ég norðan af landi og hvar sem er — bjór og svoleiðis sull er bara farið að heyra sögunni til. Það sem mér liggur líka svo mikið á hjarta að athuga er: Hvaða forvarnir erum við raunverulega með fyrir þessa einstaklinga? Við höfum verið með forvarnir gegn reykingum, okkur hefur gengið vel þar, en hvaða forvarnir erum við með núna inni í skólunum og alls staðar gegn dauðans alvöru fíknisjúkdóminum og fíkniefnunum sem hér flæða út um allt?

Ég óska þess og ég veit og ég trúi, ég hef heyrt það á hæstv. heilbrigðisráðherra að hann hefur miklar áhyggjur af málinu og ég treysti á hann (Forseti hringir.) að taka utan um þennan vanda með okkur hér á Alþingi sem erum svo virkilega miklu meira en boðin og búin til að leggja okkur í líma fyrir fólkið okkar sem er að deyja hér ótímabærum dauða vegna dauðans alvöru sjúkdóms.