154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[16:21]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þarfa umræðu og sömuleiðis hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gefa sig að málinu. Við heyrum reglulega skelfilegar fyrirsagnir í fjölmiðlum og sjáum að þær eru að verða allt of algengar fréttirnar af andláti ungs fólks í blóma lífsins sem stundum þarf að kveðja eftir langa og stranga baráttu við kerfið og fíkniefni en mjög oft líka eftir falið stríð, stríð við ópíóíða. Þeim sem kljást við ópíóíðafíkn fjölgar og sérstaklega ungu fólki. Þetta er auðvitað stórhættuleg fíkn og af allt öðrum toga heldur en mörg önnur fíkn sem áður var kennd við áfengi. Meðferðarúrræði sem teljast hefðbundin duga oft ekki sem skyldi án eftirmeðferðar með öðrum efnum og svo hendir hún líka oft fólk með fjölþættan vanda, t.d. geðrænan vanda. SÁÁ hafa margoft bent á að þau hafa bara ekki þekkinguna né það sérhæfða starfsfólk sem þarf til að þjónusta þessa hópa, og hér komum við inn á langvarandi stefnuleysi í málaflokknum. Við þurfum metnaðarfulla áætlun um það hvernig við viljum nálgast fíkn. Viljum við nálgast hana út frá refsisjónarmiði eða viljum við nálgast hana út frá heilbrigðissjónarmiði? Þetta þarf samhæfð ríkisstjórn að koma sér saman um og auðvitað setja meira fjármagn inn í málaflokkinn. Ég veit að það hljómar auðvelt að fullyrða það en það er nú bara einu sinni þannig sem þetta lítur út. Þau verða að fá fjárfestingu inn í sína starfsemi hjá SÁÁ eigi þau að þróa þjónustu sína frekar. Ég bara minni á að starfsemi SÁÁ reiðir sig að mjög miklu leyti á sjálfsaflafé eins og staðan er núna.

Það er löngu tímabært að forgangsraða í þágu þessa gríðarlega viðkvæma hóps. Við getum ekki setið hjá og lokað augunum fyrir þessum faraldri sem hrifsar fólk frá fjölskyldum sínum og oft ungt fólk sem á lífið fyrir sér en líka fjölskyldufólk.

Virðulegur forseti. Ef ég get skilið eitthvað (Forseti hringir.) eftir hérna þá á ekkert barn að þurfa að eiga foreldri sem á þess ekki kost (Forseti hringir.) að leita sér hjálpar við fíkn. Við vitum vel hvernig það endar.