154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

kerfi til að skrá beitingu nauðungar.

709. mál
[17:36]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir sína fyrirspurn og einnig hæstv. ráðherra fyrir sitt svar. Mig langar bara að koma og fagna því að það sé enn þá verið að vinna að þessu og ítreka mikilvægi þess að við séum með alla tölfræði, bæði þeirra sem eru í þvingaðri lyfjagjöf og verða fyrir nauðung á spítalanum. Þá er einnig mikilvægt að fá tölfræði um endurkomutíðni og aðrar tölfræðiupplýsingar, það sé hægt að taka þær út úr kerfinu, eins og t.d. um fólk sem hefur verið í sjálfsvígshættu og fer og kemur aftur. Þar þarf að skoða hvað við erum að gera vel og hvað ekki, hvert fólk leitar, leitar það á spítala eða annað. Mér finnst mikilvægt að það séu alls konar upplýsingar sem er hægt að taka út úr þessu kerfi og það sé skráning af því að það er svo mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að við vitum að við séum að gera vel í því sem við erum að gera.