154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

kerfi til að skrá beitingu nauðungar.

709. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að þessi vinna sé í gangi þótt ég verði að leyfa mér að beina þeirri viðbótarspurningu til hæstv. ráðherra hvers vegna þetta tekur svona langan tíma. Nú eru komin mörg ár síðan fyrst var vakin athygli á þessu og tvö ár síðan fyrirspurn hv. þm. Evu Sjafnar Helgadóttur var lögð fram hér. Hvað er það sem er svona flókið við að ná þessum tölum saman?

Fyrst hæstv. ráðherra nefnir hér mál sem hann hefur mælt fyrir og er í undirbúningi í ráðuneytinu, um lögfestingu á beitingu nauðungar í geðheilbrigðismálum, þá langaði mig til að vekja athygli á, sem ég reyndar hef gert áður við hæstv. ráðherra, þeirri þróun sem er að eiga sér stað og endurspeglast m.a. í samþykkt þings Evrópuráðsins fyrir nokkrum misserum síðan, að það sé tilefni til þess að leita leiða til að binda endi á nauðung í meðferð geðheilbrigðismála í Evrópu. Var ályktun Evrópuráðsins m.a. byggð á skýrslu sem unnin var fyrir þingið um stöðu mála í Evrópu þar sem kom m.a. fram að beiting nauðungar og annarra þvingunarúrræða í geðheilbrigðismálum færi vaxandi í Evrópu og að breytingar á löggjöf sem ætlað væri að draga úr slíkri nauðung, líkt og sú löggjöf sem hæstv. ráðherra hefur hér boðað, hefðu ekki tilskilin áhrif í framkvæmd. Orsökin er rakin til viðhorfa og menningar sem reiðir sig á stjórnun og meðferð einstaklinga sem taldir eru hugsanlega hættulegir sjálfum sér og öðrum þrátt fyrir að rannsóknir hafi hvorki leitt í ljós sérstök tengsl á milli geðraskana og ofbeldis né sýnt fram á gagnsemi valdbeitingar til að koma í veg fyrir að fólk valdi sjálfu sér eða öðrum skaða.

Mig langar að velta því upp við hæstv. ráðherra við þetta tækifæri hvort það sé einhver vinna í ráðuneytinu (Gripið fram í.) í tengslum við þetta frumvarp sem er ekki tíu árum á eftir eða 20 eða 30 og beinist að því að (Forseti hringir.) binda endi á nauðung í geðheilbrigðismálum í stað þess að lögfesta hana.