154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

farþegalistar.

636. mál
[17:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Við sjáum að það er viðkvæmt og vandasamt að ræða um þá einstaklinga sem til Íslands vilja koma, hvort sem þeir eru ferðafólk eða einstaklingar sem vilja taka þátt í atvinnulífinu, m.a. á grunni EES-samningsins, eða einfaldlega hælisleitendur. Að mínu mati er ekki flókið að taka á þessum málaflokki þótt það sé viðkvæmt. Það þarf að stýra þessu eins og öðru og það þarf að taka ákvarðanir. Mér finnst umræðan vera að þróast svolítið skringilega. Hún hefur dregið það fram, að mínu mati, að það er kannski ekki löggjöfin ein og sér sem er ákveðið viðfangsefni okkar hér í þinginu heldur ekki síður þær ákvarðanir sem ráðherrar, m.a. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hafa tekið og hafa eiginlega ýtt undir óreiðukennda mynd. Þær ákvarðanir hafa m.a. leitt til þess að við skerum okkur úr þegar kemur að fjölda hælisleitenda miðað við Norðurlöndin.

Það fylgir því ábyrgð að stjórna og hluti af þeirri ábyrgð er að stýra landinu. Það sem ég sakna sárlega, þegar við erum að taka á móti mjög fjölbreyttum hópi hælisleitenda, er að inngildingin hefur ekki fylgt með. Íslenskukennsla er staglkennd. Hún er svona óreiða á striga og sumir fá almennilega kennslu, aðrir ekki. En hún er, eins og við vitum, algjört lykilatriði til að við getum veitt fólki tækifæri til að vera virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Við í Viðreisn fórum í kjördæmavikunni um allt og fórum sérstaklega inn á bæði menntastofnanir og heilbrigðisstofnanir. Þau kerfi voru heldur ekki undirbúin undir þær miklu samfélagsbreytingar, hvort sem við erum að tala um hælisleitendur eða þá tæplega 70.000 einstaklinga sem hafa komið á grunni EES-samningsins. Allt þetta hefur vantað í stjórnun og framkvæmd á mannlegri en líka raunsærri stefnu þegar kemur að fólki sem við viljum taka á móti hingað til landsins.

Hluti af því að stjórna er að reyna að hafa yfirsýn og yfirlit yfir það hvernig við stjórnum landamærunum. Nú er það svo að ekki hafa öll flugfélög afhent farþegalista. Það er annars hluti af eðlilegu regluverki og eðlilegri stjórnun, yfirsýn stjórnvalda hverju sinni, að þau hafi aðgang að þeim farþegalistum. Það hefur verið ýjað að því að það sé alls konar fólki að kenna að ekki sé stjórn á þessu, m.a. stjórnarandstöðunni hér, en Sjálfstæðisflokkurinn vel að merkja vill ekki kannast við eigin ábyrgð þegar kemur að stjórnun þessa málaflokks. Mér finnst það algerlega óviðunandi þannig að ég er bara að reyna að bregða birtu á þennan þátt: Hverjir eru það sem bera ábyrgð á því að flugfélögin vilja ekki afhenda farþegalista til íslenskra yfirvalda? Hverjir eru það sem bera ábyrgð á því? Eru það þeir sem stjórna eða eru það einhverjir aðrir?