154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

flutningur fólks til Venesúela.

659. mál
[18:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að ábyrgð íslenskra stjórnvalda er að veita þeim sem sækja hér um vernd efnislega meðferð. Allir þeir sem hafa komið frá Venesúela og hafa óskað verndar hafa fengið hér efnislega meðferð á tveimur stjórnsýslustigum. Á síðasta ári hóf Útlendingastofnun að hafna umsóknum um vernd í miklum meiri hluta þeirra ríkisborgara sem hingað sóttu frá Venesúela. Sú niðurstaða var staðfest af kærunefnd útlendingamála og síðan hafa hjá kærunefnd ítrekað fallið úrskurðir sem staðfesta þessa nálgun eða ítreka þessa nálgun. (ArnG: … endursendingu?) Ég ítreka að hér eru allir að fá, að ég tel, eins góða málsmeðferð og hægt er að veita á tveimur stjórnsýslustigum og síðan, ef það er enn þá ágreiningur, er hægt að sækja um endurupptöku máls. Ég vil ítreka það að það fór hópur með flugi fyrir áramót, stór hópur ríkisborgara Venesúela, og eftir því sem ég kemst næst þá voru starfsmenn Útlendingastofnunar í samtali við meiri hluta þeirra sem fóru til baka. Þeir einstaklingar hafa ítrekað að jú, fólkið þurfti að bíða í landinu í sólarhring en allir hafa staðfest að þeir fengu vegabréfin sín og þeir héldu sínum verðmætum þannig að allt tal um annað (Gripið fram í.) kemur mér verulega á óvart.