154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

farþegar og áhafnir flugfélaga.

679. mál
[19:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fékk hér áðan svar við fyrirspurn sinni um ábyrgð á því þegar flugfélög afhenda ekki farþegalista. Ég vildi gjarnan kafa dýpra ofan í þetta mikilvæga viðfangsefni sem vanvirðing erlendra flugfélaga er við íslensk lög og fannst mér svar hæstv. ráðherra gefa enn meira tilefni til þess. Flugfélögunum er auðvitað skylt samkvæmt lögum að afhenda íslenskum stjórnvöldum upplýsingar um farþega sem þau flytja til landsins. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt væru umrædd flugfélög þá flugfélög frá ESB-ríkjum sem neituðu að afhenda umræddar upplýsingar með vísun til eigin persónuverndarlöggjafar og svaraði hæstv. ráðherra því til um fyrirætlanir stjórnvalda að þær væru að bregðast við þessum reglum í viðkomandi ríkjum með því að gera um það sérstakt samkomulag.

Ég vildi gjarnan heyra meira frá hæstv. ráðherra um þetta. Ég verð að taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að það eru auðvitað íslensk lög sem um þetta gilda sem öllum sem hingað koma ber að fara eftir. Það er auðvitað bara lítill hluti ríkja heimsins sem er í Evrópusambandinu, skiljanlega. En ég velti því fyrir mér hvort Evrópusambandsríkin gangi virkilega svona fram gagnvart öðrum ríkjum. Hæstv. ráðherra vísaði til þess hér áðan að Evrópusambandið hefði gert einhvers konar samkomulag við önnur ríki varðandi meðferð þessara upplýsinga. Ég velti því fyrir mér hvort Evrópusambandið og ríkin þar, sem geta auðvitað verið óforskömmuð og með yfirgang við önnur ríki, gangi virkilega svona fram gagnvart öðrum ríkjum, hvort þessi meðferð sem við erum að fá hérna sé séríslensk meðferð, hvort þau neiti að fara að landslögum af því að ríki séu ekki með sömu löggjöf eða hafi ekki innleitt ESB-reglur. Það væri gott að fá frekari upplýsingar frá hæstv. ráðherra um þetta.