154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Hákon Hermannsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér á eftir í sérstakri umræðu um þau tækifæri sem kunna að felast í rafeldsneytisframleiðslu. Það er gott að hér og hvar landið um kring sjái menn tækifæri til að orka verði til ráðstöfunar til slíkra verkefna. Á öðrum svæðum er staðan þó ólík. Á Vestfjörðum t.d. er staðan þannig að Orkubú Vestfjarða áætlar að brenna 3,4 milljónum lítra af olíu á yfirstandandi ári til að skila af sér rafmagni til húshitunar og annarra verkefna. Vestfirðir hafa um árabil verið í gíslingu þeirra sem helst vilja ekki sjá frekari orkuframleiðslu og virðist græn orkuframleiðsla þá vera litin sérstöku hornauga. Ný orkuverkefni innan eða utan rammaáætlunar hafa verið stopp um langt árabil. Verkefni eins og Hvalárvirkjun, sem er í nýtingarflokki rammaáætlunar, kemst ekki áfram vegna mótmæla þeirra sem áður töldu rammaáætlun sanngjarna leið til að leiða mál til lykta. Verkefni eins og möguleg virkjun í Vatnsfirði er stopp vegna þess að enn sem komið er hefur ráðherra orkumála ekki tekið tillit til óska Vestfirðinga um að verndunarskilmálum Vatnsfjarðar sé breytt þannig að virkjun í Vatnsfirði, sem hefur mjög hófleg umhverfisáhrif, komist á rekspöl. Meira að segja Botnsvirkjun í Dýrafirði þarf nú að fara í umhverfismat að kröfu Skipulagsstofnunar sem mun seinka framkvæmdum umtalsvert. Ég ætla ekki einu sinni að fara í umræðuna um línulagnir og hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum. Það er ótækt að landsvæði eins og Vestfirðir sé skilið eftir með þeim hætti sem nú blasir við. Það fæst hvorki að framleiða orku né flytja hana. Á meðan er brennd olía til að tryggja lágmarksafhendingu á rafmagni, og menn telja sig vera í einhvers konar orkuskiptum.