154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

rafeldsneytisframleiðsla.

[14:42]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Ég ætla bara að ítreka það sem ég hef áður sagt: Göngum að þessu markvisst og vel. Ég sé ekki í sjálfu sér ástæðu til að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart því að ríkið skipti sér af þessu eða opinberir aðilar. Ríkið og við skattgreiðendur ábyrgðumst Landsvirkjun á sínum tíma með fyrirheitum um að þegar hún væri búin að rísa og standa undir sér þá skyldum við fá rafmagnið á kostnaðarverði, ágætt að minna okkur á þetta því að það hefur auðvitað ekki alveg gengið eftir sem skyldi þótt við séum með hagfelldara verð hér en víðast. Við erum með vatnið, við erum með orkuna og við erum með aðstöðu til að gera þetta og við getum gert þetta í stórum stíl, held ég, tiltölulega fljótlega. Flugvélaeldsneyti er aðeins annar pakki þannig að við skulum einbeita okkur bara að bílum og jafnvel skipum. Ammoníak, vetni, þetta er tiltölulega einföld tækni, tiltölulega einföld framleiðsla og gæti hnykkt á þjóðarbúskapnum og afkomu ríkissjóðs með þeim hætti að við gætum losnað við þann blygðunarblett sem er að hafa 10% landsmanna við fátæktarmörk. Enn og aftur: Það er okkar stærsta skömm og ef rafeldsneyti getur gefið okkur tekjur til að eyða þeim bletti af okkur þá er ég fagnandi þeim áformum.

Af því að ég á hér örfáar sekúndur eftir þá ætla ég að nota þær til þess að votta samúð og virðingu aðstandendum Matthíasar Johannessens sem ég tel einhvern allra besta fjölmiðlamann sem við höfum átt og ritstjóra á Íslandi, skáldmæltur, velviljaður menningarmaður. Slíkir mega gjarnan stýra fleiri fjölmiðlum.