154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Áform um kaup Landsbankans á tryggingafélagi.

[15:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég er á svipuðum nótum og aðrir enda er þetta allt hið furðulegasta mál. Hæstv. fjármálaráðherra sendir Facebook-færslu frá New York þar sem hún stillir í rauninni hæstv. forsætisráðherra og samstarfsflokknum upp við vegg í framhaldi af kaupum eða áformum um kaup Landsbankans á tryggingafélagi.

Hæstv. forsætisráðherra kemur hér og segir ítrekað að það sem hæstv. ráðherra í eigin ríkisstjórn hafi sagt standist ekki, gangi ekki upp. En eins og menn þekkja segir hæstv. fjármálaráðherra að annaðhvort verði að hætta við þetta allt saman, ráðherrann muni ekki heimila það, ella verði að selja Landsbankann samhliða kaupunum á TM Tryggingum.

Ríkisstjórninni hefur verið tíðrætt um þessi svokölluðu armslengdarsjónarmiðið og beitt fyrir sig Bankasýslu ríkisins sem hefur verið hinn mikli varnarmúr ríkisstjórnarinnar þegar eitthvað er að fara úrskeiðis í stjórn hennar á fjármálakerfinu eða hvernig því er stillt upp. Nú kemur hæstv. fjármálaráðherra fram með afgerandi yfirlýsingu um að Landsbanki Íslands muni ekki fá að kaupa TM Tryggingar nema þessi sami Landsbankinn verði einkavæddur samhliða þeim kaupum. Eins og hæstv. forsætisráðherra benti á áðan kom fram að ekki stæði til að selja Landsbankann fyrr en búið væri að selja Íslandsbanka. En nú bætir hæstv. fjármálaráðherra því við að það eigi bara alls ekki að selja Landsbankann. Þó kemur fram í eigendastefnu ríkisins fyrir bankana að til standi að hefja sölu á hlut í Landsbankanum í framhaldi af sölu á Íslandsbanka.

Hvað er eiginlega gerast hérna, hæstv. forsætisráðherra? Hefur þetta mál ekkert verið rætt í ríkisstjórn? Er þetta bara skeytasending frá fjármálaráðherra af Facebook (Forseti hringir.) frá New York sem hæstv. forsætisráðherra gerir ekkert með (Forseti hringir.) og tekur ekkert mark á?