154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Áform um kaup Landsbankans á tryggingafélagi.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr sig: Hvað er í gangi? Og mér finnst þá bara rétt að ítreka það sem ég hef áður sagt og það er í fullkomnu samræmi við það sem formenn stjórnarflokkanna hafa áður sagt um mögulega sölu á Landsbankanum. Ég ætla bara að vitna hér í okkar eigin yfirlýsingu, sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir gerði að umtalsefni áðan, þar sem kemur fram að ríkisstjórnin leggi hér eftir sem hingað til áherslu á óbreytt eignarhald ríkisins á hlut sínum í Landsbankanum. Þetta er yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna frá árinu 2022. Af minni hálfu hefur ekkert breyst þar. Ég vitna bara hér í stefnu ríkisstjórnarinnar, þá stefnu sem formenn flokkanna hafa orðið ásáttir um. Hún er algerlega skýr og hv. þingmaður þarf ekkert að efast um það eða finnast það ruglandi.

Ég vil síðan segja það, vegna þess máls sem hér er til umræðu, að það er líka mikilvægt að halda því til haga að öll slík viðskipti eins og hér um ræðir verða að sjálfsögðu að vera samkvæmt þeim ferlum og reglum sem við höfum sett okkur. Ég hef komið að því í fyrri svörum — og veit að kannski hljóma ég endurtekningarsöm en mér finnst mikilvægt að halda því til haga — að í eigendastefnu ríkisins kemur líka fram að bera skuli meiri háttar ákvarðanir undir Bankasýslu ríkisins og að þetta megi telja meiri háttar ákvörðun. Það er ekki óeðlilegt að það verði gert í þessu tilfelli.