154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Áform um kaup Landsbankans á tryggingafélagi.

[15:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er alltaf svolítið gaman við þennan sal að hv. þingmenn hafa gaman af því að leggja mikla merkingu í orð hæstv. ráðherra í þessum ágæta fyrirspurnatíma. Hér hefur ekkert verið sett ofan í við neinn. Ég hef eingöngu farið yfir þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur kynnt í þessum málum og þær standa. Ég hef farið yfir það hvernig þessi mál ríma öll saman, eins og ég hef verið spurð um hér, bæði salan á eignarhlut í Íslandsbanka og eins mikilvægi þess — af því að hv. þingmaður spyr hér um hver afstaða mín sé.

Fyrst og fremst er afstaða mín til þess að við þurfum að fylgja þeim reglum sem við höfum sjálf sett okkur um þessi mál. Það þýðir að slíka ákvörðun þarf að bera undir Bankasýslu ríkisins. Við fórum í gegnum mikla umræðu hér í þessum sal eftir hrun um mikilvægi þess að við tryggðum ákveðinn aðskilnað á milli stjórnmálanna og bankastarfsemi. Ég hef ekkert skipt um skoðun á því að mér finnst mikilvægt að þar sé ákveðin aðskilnaður. (Forseti hringir.) En að reglum sé fylgt, að ferlum sé fylgt, það er ótvírætt mín afstaða í þessu máli.