154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

sólmyrkvi.

603. mál
[17:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Á dauða mínum átti ég von frekar en að ég kæmi hér upp í umræðu um almyrkva á sólu í ágúst 2026. En hér er ég nú samt og af einskærum áhuga mínum á vegamálum í Norðvesturkjördæmi. Mig langar til að skjóta því að hæstv. umhverfisráðherra að eiga samtal við félaga sinn í ríkisstjórn, hæstv. innviðaráðherra, en ég hef veitt því athygli að áhersla á svokallaða ferðamannavegi hefur minnkað mjög í samgönguáætlunum undanfarinna kjörtímabila frá því sem áður var. Ég hef fylgst sérstaklega með vegi sem kallaður er Uxahryggjavegur, sem virðist því miður eiga fáa vini í dag. Þeir ferðamannavegir sem framkvæmdir voru hafnar við upp úr aldamótum, Dettifossvegur og fleiri mætti nefna, hafa haft gríðarlega mikil áhrif. Ég vil bara hvetja hæstv. umhverfisráðherra, af því að nú er tími til að bregðast við, að ræða það sérstaklega við hæstv. innviðaráðherra að gera skurk í því að gera ferðamannavegum, ferðaþjónustuvegum, (Forseti hringir.) hærra undir höfði í samgönguáætlun en nú lítur út fyrir að verði.