154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

umhverfisþing.

714. mál
[17:37]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það stendur til að halda umhverfisþing síðar á þessu ári og undirbúningur að því er nú í gangi í ráðuneytinu. Umhverfisþing hafa nú verið haldin í 12 skipti, fyrst árið 1996, svo þau eiga sér nokkra hefð. Ákvæði um umhverfisþing kom fyrst inn í lög, nánar tiltekið náttúruverndarlög, árið 2001. Þá var tiltekið að þingin kæmu í stað náttúruverndarþinga sem höfðu ákveðið stjórnsýsluhlutverk áður en umhverfisráðuneytið kom til skjalanna og Náttúruvernd ríkisins, sem síðar rann inn í Umhverfisstofnun. Síðasta þing var haldið 2021, en eins og fyrirspyrjandi bendir á er gert ráð fyrir að halda þing að jafnaði annað hvert ár, eða tvö á kjörtímabili. Þar hefur raunar ekki verið alveg föst regla því stundum hefur verið styttra á milli kosninga en fjögur ár og eins setti Covid strik í reikninginn. Það hefði farið vel á því að halda umhverfisþing árið 2023, en ég vona að ekki sé mikill skaði af því að þarna skakkar einu ári.

Ég vil benda á í því samhengi að þegar fyrstu umhverfisþing voru haldin var umræða um umhverfismál snöggtum minni en hún er í dag. Þróun þinganna sýnir þetta kannski; fyrstu þingin voru einn og hálfur dagur að lengd, en 12. umhverfisþing árið 2021 var þrjár klukkustundir að lengd og haldið í netheimum. Enginn skortur er á veigamiklum ráðstefnum og fundum um umhverfismál nú og má t.d. nefna árlegan loftslagsdag, þar sem farið er yfir stöðu mála í þeim stóra og mikilvæga málaflokki. Það má raunar spyrja hvort ástæða sé til að breyta ákvæðum náttúruverndarlaga um umhverfisþing í ljósi þessarar þróunar. Eins og fyrr segir var ákveðin söguleg skýring á því að ákvæði um umhverfisþing rötuðu í náttúruverndarlög: Margir söknuðu gömlu náttúruverndarþinganna og vildu halda áfram svipuðum samkomum. Þá var og er tiltekið sérstaklega í lögum að annað hvert þing eigi að fjalla um sjálfbæra þróun og áætlanir á því sviði. Þetta var gert á nokkrum þingum, en áætlun Íslands um sjálfbæra þróun, Velferð til framtíðar, var í gildi undir umsjón umhverfisráðuneytisins frá 2001 til 2020. Síðustu umhverfisþing hafa verið ólík fyrstu þingunum að efni og umgjörð og fennt yfir upphaflegan tilgang þeirra. Ég mun láta skoða hvort ástæða sé til að breyta þessum ákvæðum eða fella niður, en ákvörðun um slíkt yrði þó auðvitað í höndum Alþingis.

Þangað til annað verður ákveðið er hins vegar rétt að halda umhverfisþing samkvæmt ákvæðum laganna og það er, eins og ég nefnt, í undirbúningi. Það er enginn skortur á umræðuefnum og ég hlakka til þingsins, eins og allra umræðna um þau margvíslegu og mikilvægu málefni sem eru undir í mínu ráðuneyti.