154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

kynfæralimlesting kvenna.

595. mál
[18:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er virkilega jákvætt að heyra af samtölum íslenskra stjórnvalda við yfirvöld í Síerra Leóne. Mér er kunnugt um mikla tregðu stjórnvalda þar varðandi þessi málefni. Þegar við fórum einhverju sinni þangað út, íslensk sendinefnd, var okkur tjáð að ástæðan fyrir tregðunni væri kannski ekki síst sú að þarna er óvenjuhátt hlutfall kvenkynsráðamanna miðað við allt og allt í þessum heimshluta og að við skyldum hafa það hugfast að þeir væru meira eða minna allir ef ekki allir umskornir, sem sagt kvenkyns ráðamenn. Þetta er því gríðarlega viðkvæmt málefni.

Mig langaði bara til að hvetja hæstv. ráðherra til að leita allra leiða til að koma skilaboðum íslenskra stjórnvalda á framfæri og leggja sérstaklega áherslu á þetta baráttumál í Síerra Leóne, á baráttuna gegn kynfæralimlestingum kvenna.