154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

kynfæralimlesting kvenna.

595. mál
[18:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin þakka hv. þingmanni fyrir hvatninguna og fyrir að taka málið upp í þinginu. Þetta er dæmi um mál þar sem við getum látið rödd okkar heyrast. Við veltum því stundum fyrir okkur hvernig við best söfnum kröftum okkar svona tiltölulega fámenn þjóð í samfélagi þjóðanna, en ég held að það sé einmitt með því að vera með skýra sýn, velja sér vettvang til að beina sjónum okkar að, láta ekki deigan síga og láta ekkert stoppa sig um leið og við berum út boðskapinn um þau gildi sem samfélag okkar byggir á.

Við vitum að við Íslendingar höfum náð þeim árangri sem við höfum náð, í að byggja upp lífskjör í fremstu röð, um þjóðarframleiðslu sem er á meðal tíu efstu þjóða í heimi, sem endurspeglast aftur í góðum lífskjörum, vegna þess að við höfum frá upphafi haldið ákveðnum gildum á lofti um lýðræði og trú á einstaklinginn, á mannréttindi, á þrískiptingu valdsins í okkar tilviki. Og þennan boðskap getum við flutt víða og bent á leiðir fyrir aðra til að feta sömu slóð þannig að lífskjör fylgi í kjölfarið. Það er einfalt að benda á það en það er bara einfaldlega ekki sjálfsagt að þar sem lífskjör eru best í heiminum í dag þar er staðinn vörður um þessi helstu grunngildi. Og varðandi þetta tiltekna mannréttindamál þá megum við aldrei missa trúna á að við höfum hlutverki að gegna. Þarna eru íslensk stjórnvöld í samtali við stjórnvöld á svæðinu, í samstarfi við alþjóðastofnanir og þessi vinna mun halda áfram. Við getum verið stolt af þeirri vinnu sem unnin hefur verið hingað til.