154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér ljúft og skylt að koma eftir þessari umvöndun feðraveldisins hér fyrir þingheim. En að öðru. Hæstv. háskólamálaráðherra hefur nú birt frumvarp til breytinga á lögum um Menntasjóð námsmanna í samráðsgátt sem ætlað er að breyta skilyrðum um námsframvindu og leggja niður ábyrgðarmannakerfið. Margt gott, sum sé, en það breytir ekki því sem kalla má ömurlega stöðu í málefnum háskólanema. Hvergi á Norðurlöndunum eiga stúdentar erfiðara með að framfleyta sér á námslánum en hér á Íslandi. Þau duga ekki fyrir framfærslu. Hvergi þurfa námsmenn að vinna jafn mikið með námi. Núgildandi lög áttu að skapa hvata til stúdenta til að ljúka námi innan tiltekins tíma en staðreyndin er sú að það vinna hvort sem er allir með námi og rúmlega fjórðungur stúdenta upplifir erfiðleika við að sinna námi vegna vinnuálags. Það sér hver sem er að þetta gengur ekki upp og aldrei hafa jafn fáir tekið námslán og nú. En hvað skýrir þessa stöðu? Það kemur svo bersýnilega í ljós í nýju lagafrumvarpi og háskólamálaráðherra hefur ákveðið að nýta hér ekki galopið færi á því að gera meginbreytingar á fjármögnun sjóðsins. En áfram á nú að gera þá gölnu kröfu að lánakerfi Menntasjóðs skuli standa undir sér.

Virðulegi forseti. Það þýðir bara eitt. Það þýðir að stúdentar fjármagna fjárfestingu sem öll önnur lönd í kringum okkur standa straum af sjálf í mestum mæli. Það er ekki nóg að gera breytingar á reiknilíkani háskólanna og slá ryki í augu almennings með því að skólagjöld muni brátt heyra sögunni til. Og nú spyr ég: Hvort ætla yfirvöld að fjárfesta í háskólanámi Íslendinga þar sem staðan er nú langt undir OECD-meðaltali eða velja meðvitað að búa til enn stéttskiptara þjóðfélag þar sem jafnrétti til náms mun gott sem heyra sögunni til? Við stefnum hraðbyri í þessa átt. Hraðbyri, segi ég. Ég spyr bara: Fer þetta ekki bara að verða komið gott?