154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að sækja árlegt þing kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem sett var í New York í síðustu viku. Meginþema fundarins að þessu sinni var að hraða árangri er varðar kynjajafnrétti og valdeflingu allra kvenna og stúlkna með því að takast á við fátækt og styrkja stofnanir og fjármögnun með kynjaðri heildarsýn. Ég sótti fjölda viðburða auk þess að sitja fundi með þingmönnum Norðurlandanna og kynningar frá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Krafturinn er ólýsanlegur og að heyra raddir kvenna alls staðar að úr heiminum er ómetanlegt. Allar vilja þær sjá réttlátara samfélag þar sem konur koma með beinum hætti að ákvörðunartöku um líf sitt og velferð.

Ungmenni frá öllum heimshornum komu saman í gær til að ræða framtíðarsýn sína um að binda enda á fátækt og efla jafnrétti kynjanna. Fundurinn er haldinn í skugga ólýsanlegra þjáninga sem stríðsátök víða um heim valda. Það sem situr eftir er sú sára staðreynd að í auknu stríðsbrölti og hervæðingu heimsins eru það fyrst og fremst konur og börn sem líða. Stríð, fátækt, náttúruhamfarir og bakslag mannréttinda — allt bitnar þetta mest á konum. Á sama tíma er konum markvisst haldið utan ákvarðanatöku og spurt var á fundinum í New York: Hvar eru konurnar í friðarviðræðunum? Það er staðreynd að karlar leika lykilhlutverk í hinu hörmulega valdatafli sem nærir og hvetur til átaka um allan heim en konur og börn eru þau sem fyrst og fremst líða.