154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Rafn Helgason (V):

Forseti. Ef við ætlum að tryggja góð loftgæði til framtíðar þá verðum við að láta hendur standa fram úr ermum. Loftmengun eykst og Ísland hefur alls ekki verið í fararbroddi við að draga úr henni. Og hvað getur ríkisstjórn Íslands gert? Hún gæti t.d. stigið upp og framfylgt mengunarbótareglunni með því að setja verðmiða á losun loftmengunarefna og gróðurhúsalofttegunda og veita fjármögnun þannig í réttar áttir. Víðtækur samfélagslegur kostnaður er bersýnilega ekki hluti af ákvarðanatöku allra einstaklinga og fyrirtækja í daglegu lífi. Hnignun loftgæða og áhrif loftslagsbreytinga; þessar stærðir endurspeglast ekki í markaðsvirði vara upp að skynsamlegu marki. Því lifum við í sífellu við markaðsbrest. Nýir grænir orkugjafar sem eru tæknilega fýsilegir virðast efnahagslega óhagkvæmir vegna þeirra mistaka að byggja ekki á mengunarbótareglunni. Við sjáum að það þarf uppbyggingu í höfnum landsins og hún þarf að samræmast grænum áherslum okkar. Ég er ekki bara að tala um landtengingar fyrir rafmagn heldur einnig innviði fyrir nýja græna orkugjafa sem geta knúið skipin. En af því að loftmengun sem leggst yfir byggðarlög, til að mynda frá skemmtiferðaskipum, er ekki sett í samhengi mengunarbótareglunnar er ekki nægur hvati fyrir ríkið eða einkaaðila til að fara í þessa innviðauppbyggingu með viðunandi hætti. Sem dæmi um það voru nánast engir styrkir veittir úr Orkusjóði til hafna árið 2023, einfaldlega af því að olíusparnaður fyrir hverja krónu þótti ekki nógu álitlegur, ekki nógu álitlegur af því að verðmiðinn á loftgæðahnignun er ekki skýr. Við munum ekki ná árangri í þessum málaflokki fyrr en kostnaðurinn á vörum endurspeglar ytri áhrif þeirra. Þess vegna mun ég á næstu dögum leggja fram þingsályktunartillögu sem felur ríkisstjórninni að verðmeta tjónið sem mengun veldur og leggja gjöld á í samræmi við það.