154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[17:06]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingsályktunatillaga virkjar ekki réttindi en þetta er málstefna íslensks táknmáls 2024–2027 og aðgerðaáætlun. Það er okkar og þeirra sem vinna með þessi málefni að fylgja því eftir. Við eigum ekki að stinga þessu í skúffu eða undir stól. Mér þykir það miður ef hv. þingmaður getur ekki tekið undir þessa þingsályktunartillögu (Gripið fram í.) og þessi réttindi og unnið með það. Ég veit það og ég trúi ekki öðru en að í störfum okkar allra séum við tilbúin til að vinna að þessu, að það verði ekki örlög þessarar þingsályktunartillögu eða aðgerðaáætlunar að hún fari fyrir bí. En orð eru til alls fyrst og þetta er í samráði. Hv. þingmaður talaði um það hérna áðan að það þyrfti ekki að setja það í stefnu að tryggja réttindi heyrnleysingja í skólum landsins. (BLG: … lögum.) Það er í lögum, það er rétt. En við þurfum kannski svolítið að ýta á eftir því vegna þess að ef hv. þingmaður myndi kynna sér námskrá heyrnleysingja í skólum táknmálstalandi barna, þá er ýmislegt sem kæmi honum þar á óvart.