154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Rafn Helgason (V):

Hæstv. forseti. Við erum að sóa orku á hverju ári vegna takmarkana í flutningskerfinu. Þórisvatn er ekki að fyllast en á meðan rennur vatn á yfirfalli út í sjó fyrir austan sem gæti nýst til raforkuframleiðslu. Við getum ekki náð jafnvægi þarna á milli vegna þess að okkur vantar bætt flutningskerfi raforku. Fátt varpar betur ljósi á óskilvirkni kerfisins. Hitaveitur og fiskimjölsverksmiðjur brenna nú jarðefnaeldsneyti á stöðum þar sem búið er að fjárfesta í innviðum til nýtingar á endurnýjanlegri orku. Sá hluti þessara skerðinga sem er til kominn vegna flutningstakmarkana er ótækur. Öfug orkuskipti, þ.e. að skipta úr rafmagni í olíu, eiga ekki að þekkjast í landi endurnýjanlegrar orku. Spurningin: Ertu virkjunar- eða verndunarsinni? getur ekki verið lokasvar í umræðu um orkumál. Það er ekki sjálfgefið að ný virkjun leiði af sér að dregið sé úr losun frá ákveðnum geirum. Kannski er annar geiri sem býður betur í orkuna. En ef ákveðin markmið eiga að vera í forgangi þarf að horfa á hvaða hvatar ættu að vera í löggjöfinni. Það er heldur engum greiði gerður að varpa fram pólitískri sýn um tvöföldun orkuframleiðslu. Án stefnu leysist notkunarvandinn ekki. Án stefnu er tvöföldun raforkuframleiðslu ekki að fara að stuðla að sátt og samhug landsmanna um þennan málaflokk. Það er mikilvægt að hafa það skýrt hvernig aukin orkuöflun mun samræmast loftslagsskuldbindingum okkar og því er ekki úr vegi að ríkisstjórnin setji sér skýrari eða jafnvel skýra loftslags- og orkustefnu sem tekur á þessum grundvallaratriðum.