154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það lá ekki fyrir að skuldbindandi samningur væri í undirbúningi og þess vegna var ekki tímabært að gera slíkt. Það að ég hafi svarað spurningu um orðróm, og nefndi sérstaklega að það væri orðrómur og ég hefði engar upplýsingar um að það væri í hendi, enda var það ekki í hendi heldur var einhver áhugi og einhverjar viðræður — það var það sem ég gerði og sagði mína skoðun. Sú skoðun liggur fyrir, stjórn Bankasýslunnar þekkti þá skoðun og aðrir líka, sömuleiðis stjórnendur bankans. Ég átti fund í febrúar með stjórnendum bankans, almennan fund um almenn málefni bankans þar sem bar á góma áhugi á að mögulega gera tilboð eða áhugi á því að stíga inn á tryggingamarkað og vísaði ég í eigendastefnu og stefnu ríkisstjórnarinnar. Mín skoðun og minn vilji lá því algjörlega fyrir. Það er merkilegt að svo virðist sem stjórnarandstaðan hoppi á milli þess að líta á Bankasýsluna sem sjálfstæða, með einhverja fjarlægð frá ráðherranum, og ekki. (Forseti hringir.) Ferillinn sem við erum búin að koma fyrir er algjörlega skýr. Hann er þannig að Bankasýslan hefði haft samband við mig hefði hún vitað og verið með formlegt erindi um að þetta stæði til eða væri komið í höfn. Það vissi hún á sunnudaginn, þá talaði ég við Bankasýsluna og ekki fyrr.