154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég sagði í yfirlýsingu minni var að af þessum viðskiptum yrði ekki með mínu samþykki. Hefði Landsbankinn þurft að afla hlutafjár til að ganga frá þessum viðskiptum þá væri augljóst að það færi fyrir hluthafafund og þá væri hægt að beita vilja eigandans. Hvort þetta sé mál sem þarf að fara fyrir hluthafafund — það er hægt að túlka það þar sem bankinn getur greitt fyrir þetta með reiðufé, sem ella gæti reyndar skilað sér í arðgreiðslu til ríkisins sem ég tel vega töluvert þyngra.

Ég var ekki að hóta einu eða neinu. Það er ekki í samræmi við eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki að bankinn ríkisvæði tryggingafélag. Þar af leiðandi er það hvorki í samræmi við stjórnarsáttmála né eigendastefnu að þessi viðskipti fari í gegn. Ég nefndi sérstaklega að þau yrðu ekki að veruleika með mínu samþykki.

Málið er statt þar núna að Bankasýslan hefur sent spurningar á bankaráðið þar sem þau fá þessa daga til að svara. Við tökum hér í þessu ferli eitt skref í einu. Við erum núna að bíða eftir svörum frá bankaráðinu um það hvernig þessi ákvörðun er tekin, af hverju bankasýslan var ekki upplýst með formlegum hætti, því að hafi það verið gert þá hefði verið hægt að fylgja þeim ferlum og hafa þá stjórn á atburðarásinni sem leikreglurnar gera ráð fyrir að hægt sé að gera, því að það er Bankasýslan sem hefur það hlutverk að sjá um þessi samskipti við fjármálafyrirtæki og hafa eftirlit með framkvæmd eigendastefnu og samningum ríkisins í viðkomandi fyrirtæki. Ef Bankasýslan er ekki með upplýsingar um það þá getur Bankasýslan ekki upplýst ráðherra um það.

Ráðherra og ráðuneytinu er ætlað að hafa almennt eftirlit með Bankasýslunni, þ.e. hvort hún sinni hlutverki sínu og geri það í samræmi við lög, þannig að það er til lítils að ráðherra hafi heimild til inngripa í störf Bankasýslunnar ef Bankasýslunni berast ekki þær upplýsingar sem bankanum ber að veita henni.