154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[17:06]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa munnlegu skýrslu og þá umræðu sem hér fer fram. Þetta er allt hið áhugaverðasta mál og umræðan því fylgjandi að sama skapi. Á undanförnum dögum og í þessari umræðu hér hefur margt verið sagt sem gefur svo sem fullt tilefni til þess að ræða þetta mál frá ýmsum vinklum eins og við gerum hér í dag. Og sjálfsagt munum við ræða þetta mál áfram að þessari umræðu lokinni.

Einhverjir hafa spurt hvort það sé verkefni fjármálastofnunar í opinberri eigu eins og Landsbankans að stunda áhættusækna starfsemi með fjárfestingum, svo sem með kaupum og tryggingastarfsemi. Tryggingastarfsemi er jú í eðli sínu áhættufjárfesting. Eða ætti það kannski einmitt að vera liður í félagslegum áherslum banka í opinberri eigu að festa kaup á jafn mikilvægri starfsemi og tryggingafélagi? Það er ekki gott að segja, virðulegur forseti.

Í þeirri hreyfingu sem ég tilheyri kemur reglulega til umræðu mikilvægi þess að aðskilja venjulega bankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi bankanna, ekki síst banka í samfélagslegri eigu. Þó að skref hafi verið stigin í þá átt á síðasta kjörtímabili tel ég að það ætti að ganga lengra í þá átt. Það er jafnframt skoðun mín að ekki eigi að selja Landsbankann. Í því samhengi vil ég segja að það hefur til að mynda verið stefna minnar hreyfingar að sköpuð verði umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfi samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum. Hvort það gæti orðið að veruleika með breytingum á starfsemi Landsbankans, virðulegi forseti, skal ég ekki segja til um.

En allt að einu, virðulegi forseti, þá er afar mikilvægt þegar vélað er um mál sem þessi að öllum ferlum sé fylgt. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett eigendastefnu og það er Bankasýslunnar að hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Með þessum viðskiptum er Landsbankinn vissulega að fara inn á nýtt svið, þ.e. tryggingastarfsemi. Það er ekki gert ráð fyrir því í lögum að fjármála- og efnahagsráðherra hafi skoðun á einstökum viðskiptalegum ákvörðunum en í tilfelli meiri háttar ákvarðana, sem allt bendir til að þetta sé, þá skulu þær bornar undir Bankasýslu ríkisins. Það var ekki gert í þessu tilfelli, eins og komið hefur fram, og ekki góður bragur á því að mínu mati.

Það ferli þarf að skoða nánar og ég spyr: Hefði ekki verið ástæða fyrir Bankasýsluna þegar orðrómur fór af stað um þessi kaup að kanna stöðu málsins hjá stjórn Landsbankans? En svo má líka spyrja: Erum við e.t.v. komin á þann stað að taka þurfi til umræðu breytingar á eigendastefnu hins opinbera í fjármálafyrirtækjum svo hún sé í takti við tímann? Bankar hafa jú verið að festa kaup á tryggingafélögum og kannski er þetta óumflýjanleg þróun fyrir banka í opinberri eigu? Enn eitt efnið til þess að ræða í þessu samhengi, virðulegi forseti.