154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu og nefna hérna nokkur atriði. Það hefur aldrei verið nein málsvörn sett fram um sjálfstæði Bankasýslu ríkisins, ekki varðandi Íslandsbanka og ekki heldur núna. Þetta með sjálfstæðið var í reynd strámaður sem umboðsmaður Alþingis felldi. Við vorum skýr í því máli varðandi heimildir til að beita tilmælum og að við myndum ekki veigra okkur við því ef þannig aðstæður sköpuðust.

Ég heyri sjónarmið um að breyta eigi eigendastefnu ríkisins til að tryggja ákveðna ríkisvæðingu og treysta hana í sessi og jafnvel auka þau umsvif, sem ég er alfarið ósammála en er áhugavert að fá hér fram. Trúðurinn sem hér stendur fylgir þeim reglum sem mér ber að fylgja en ég hef hins vegar fulla lagalega heimild til þess að hafa skoðun og nefndi sérstaklega þá skoðun í samhengi við orðróm.

Þessi ríkisstjórn ætlar að klára sölu á Íslandsbanka. Það er stórt verkefni og þar þarf að vanda sig mjög. Það hef ég gert fram til þessa og ég mun leggja mig alla fram um að gera það til enda. Ríkisstjórn sú er nú situr og ég á sæti í hefur það ekki á stefnuskrá sinni á þessu kjörtímabili að selja Landsbankann. Þetta þekki ég vel. En hún hefur heldur ekki á stefnuskrá sinni að ríkisvæða tryggingafélag. Slík ríkisvæðing er ekki í samræmi við eigendastefnu. Það er skýrt. Málinu er ekki lokið og við tökum það í þeim skrefum sem þær leikreglur sem við höfum hér skrifað segja til um. En miðað við umræðuna hér að þá er margt sem þarf að endurskoða og ég mun gera það sem ég get til að koma í veg fyrir a.m.k. frekari ríkisvæðingu á kerfinu og líka að vera á móti því að breyta eigendastefnu þannig að við göngum enn lengra heldur en nú er.