154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

847. mál
[17:28]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf ekki allur fiskur að fara á markað. Í nágrannaríkjunum, gott ef það er ekki í Færeyjum, fara t.d. 30% að jafnaði á markað af hverju skipi sem getur þá tryggt það að ef fiskvinnsla og útgerð eru sama fyrirtækið hefur fiskvinnslan alltaf beinan aðgang að 70% af hráefninu. Það er alveg hægt að samræma þetta með þau sjónarmið að leiðarljósi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er það svona opið hver á að fara með yfirstjórnina? Ég hefði talið eðlilegast að það væri einfaldlega í höndum Samkeppnisstofnunar því að þetta er mál sem varðar mjög mikið samkeppni, samþjöppun. Við getum bara sagt það eins og er að stóru sjávarútvegsfyrirtækin eru farin að ná tökum á flestum atvinnugreinum, fjármálakerfinu, matvörumarkaðnum, olíuversluninni og hinu og þessu. Þetta er orðið visst áhyggjuefni og lykillinn að því, það er ég sannfærður um, er að snúa þessu í átt að einhverju vitrænu, þ.e. að skoða það að leggja af þessa ríkisverðlagningu og taka einfaldlega upp markaðsverð. Það blasir við. Það er ekkert vit í því að einhver fiskvinnsla þurfi að kaupa hráefni á 30% hærra verði en samkeppnisaðilinn og að ríkið sé hér að starfrækja einhverja ríkisverðlagningu. Þetta er gamaldags og er mjög auðvelt að snúa ofan af þessu. Ég er ekki viss um að það sé endilega svo mikil fyrirstaða, svo undarlegt sem það er, í Vinstri grænum hvað þetta varðar, að það sé miklu frekar hjá markaðsflokknum, Sjálfstæðisflokknum, að koma þessu í eðlilegt horf. Það væri áhugavert að vita hvort hæstv. ráðherra geti svarað (Forseti hringir.) því hvers vegna þetta hefur ekki verið gert, hvers vegna þessu hefur ekki verið komið í það horf sem eðlilegt er og síðan hvort ekki komi til greina að þetta fari til Samkeppnisstofnunar.