154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[18:38]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að hér er fram komið áhugavert mál, áhugavert frumvarp sem er eins og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir í sinni framsögu liður í stofnanasameiningum sem standa fyrir dyrum og hangir að einhverju leyti saman við annað frumvarp sem varðar sameiningu Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Hér er hins vegar verið að tala um sameiningu þeirra þriggja stofnana sem sinna friðlýstum svæðum í landinu og Minjastofnunar að auki.

Fyrst vil ég segja, virðulegi forseti, að ég tel að það væri til mikilla bóta að sameina þær þrjár stofnanir sem sinna friðlýstum svæðum í landinu. Þetta eru náskyld verkefni og hægt væri að ná heilmikilli samlegð með sameiningu þessara þriggja stofnana. Ég tel mig vita, þar sem ég þekki ágætlega til í þessum geira, verandi einn fárra sem hefur unnið hjá öllum þessum þremur stofnunum, að mjög mörg bíða eftir þessari sameiningu eða horfa til hennar með mjög jákvæðum hug, sem er bara gott að vita. Því til viðbótar vil ég bæta við að mér þykir gott að sjá í þessari tillögu að það sem lýtur að veiðistjórn villtra fugla og villtra spendýra á landi tilheyrir nýrri stofnun, nái þetta fram að ganga, enda byggir löggjöfin sem veiðistjórnin byggir á að mörgu leyti á tímamótalöggjöf þegar kemur að umgengni við auðlindir í þessu formi, fugla og spendýra; löggjöf frá 1994 þar sem í rauninni allar þessar skepnur eru friðaðar. Og veiðistjórnin byggir þá á vísindalegri nálgun á því hvað í rauninni unnt er að veiða. Það er ákvæði eða upplegg í löggjöf sem ég held að hafi verið ákveðin tímamót 1994, ef ég kann þetta rétt, alla vega er þetta góður þráður þegar við erum að nálgast umgengni við auðlindirnar, í þessu tilfelli villta fugla og villt spendýr á landi.

Samspil veiðistjórnar við aðrar stofnanir, svo sem Náttúrufræðistofnun Íslands, er líka mikilvægt og ég sé engin merki eða teikn um það í þessu samhengi að leggja eigi það af eða draga eitthvað úr því, því að það er auðvitað grundvöllurinn að vísindalegri ákvarðanatöku að við höfum þá þekkingu sem við þurfum að byggja á þegar og ef heimiluð er veiði eða veiði takmörkuð í einhverju samhengi.

Hér er hins vegar líka lagt upp með að sameina stofnanir sem eru í eðli sínu ólíkar þegar kemur að friðlýstu svæðunum. Mig langar að geta þess, og hef sagt það áður, að ég held að það hafi verið mikil framsýni hjá Alþingi árið 2007 við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, með setningu laga um Vatnajökulsþjóðgarð á sínum tíma sem er svo formlega stofnaður ári síðar á grundvelli reglugerðar, að uppleggið í stjórn og umsjón friðlýstra svæða er með mjög ríkri aðkomu sveitarstjórnarfólks og annarra hagaðila í þessum geira, þ.e. friðlýsingunni. Líka eru ákveðin markmið í löggjöfinni sem hafa að mörgu leyti náð fram að ganga og skipta mjög miklu máli, sem ég held að við eigum að gera meira af að horfa til þegar við erum að skipuleggja eða leggja upp með stjórn á friðlýstum svæðum. Öðru máli gegnir um náttúruverndarlöggjöfina og umsjón Umhverfisstofnunar á þeim svæðum, þó að þar sé sannarlega þessi aðkoma samstarfsnefnda og/eða þjóðgarðsráða, sér í lagi á stærri svæðunum, og er það vel. Svo lýtur, eins og við þekkjum, okkar gamli góði þjóðgarður á Þingvöllum, sá elsti, alveg sér lögmálum.

Ég og hæstv. ráðherra vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja mjög áhugavert málþing hjá Landvarðafélagi Íslands um síðustu helgi, um landverði og náttúruvá. Þar kom fram, ekki í fyrsta sinn, varðandi aukna áherslu á mikilvægi landvörslu, sem var jú sannarlega aukin í tíð fyrri ríkisstjórnar, að enn þá er þörf á aukningu í þennan málaflokk og inn í þessa getu, sér í lagi á heilsársgrundvelli núna þegar við vitum að stærstur hluti þeirra sem sækja landið heim gerir það vegna íslenskrar náttúru. Það eru alls kyns áskoranir í þessu þó að umræðan á téðu málþingi hafi fyrst og fremst verið um hlutverk landvarða og náttúruvá eðli málsins samkvæmt, í ljósi þess sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarin ár, sér í lagi á Reykjanesi. Þetta er atriði sem ég tel okkur þurfa að vera mjög vakandi fyrir, þ.e. að fjárframlög til þessa geira sem snýr að umsjón og rekstri friðlýstra svæða fylgi því sem brýnt er eftir því sem mál þróast og/eða verkefnin aukast.

Ég kvaddi mér hljóðs hér og bað um orðið vegna þess að þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs gerir engu að síður fyrirvara við þetta frumvarp og ætla ég að fá að fara aðeins yfir þá hér. Þingflokkurinn telur að málefni minjaverndar þurfi að taka til ítarlegri skoðunar með tilliti til núverandi dreifingar málaflokksins innan stjórnsýslunnar og fjárframlaga til rekstrar, rannsókna og varðveislu menningarminja. En við teljum að sama skapi að mikil sóknarfæri felist í því að styrkja og styðja vel við málaflokkinn í heild sinni. Ég gat ekki heyrt annað en að hæstv. ráðherra væri því sammála í hans ræðu og yfirferð og í andsvörum áðan við aðra hv. þingmenn. Það er vel, því að ég held að m.a. sú skýrsla sem nefnd var og unnin undir forystu hv. þm. Birgis Þórarinssonar dragi það ágætlega fram að þarna er sannarlega verk að vinna. Hafandi sagt það telur þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, að svo komnu máli, ekki að Minjastofnun eigi heima með öðrum þeim stofnunum sem til stendur að sameina með þessu frumvarpi, svo það sé sagt.

Við munum jafnframt leggja það til við þinglega meðferð málsins, sem nú er hafin, að staða Þingvalla sem friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og sem þjóðgarður verði skoðuð sérstaklega. Þar teljum við brýnt að horft verði til hlutverks Alþingis innan þinghelginnar sjálfrar á Þingvöllum. Eðli málsins samkvæmt hefur sá þjóðgarður, sem er stofnaður með lögum 1928 og verður að veruleika 1930 og hangir þar auðvitað í sögulegu samhengi þjóðarinnar, tekið gríðarlegum breytingum á þessum næstum 100 árum. Þetta er líklega sá viðkomustaður eða áfangastaður sem flestir okkar gesta heimsækja, og oftar en einu sinni og tvisvar eins og við þekkjum. Engu að síður þarf einhvern veginn að horfa á það, þó að tekið sé sérstaklega utan um mikilvægi þess að þarna sé styrk og góð stýring, og hefur þar tekist vel til á þessu friðlýsta svæði til framtíðar, að hlutverk Alþingis í sögulegu samhengi er mikilvægt. Það var það alltaf og hefur alltaf verið í samhengi þinghelginnar, þess svæðis sem sérstaklega er kallað svo á Þingvöllum.

Þá gerir þingflokkurinn athugasemdir við breytingar á aðkomu náttúruverndarsamtaka að stjórn friðlýstra svæða. Við ítrekum jafnframt mikilvægi þess að aðilar úr héraði komi að stefnumótun og ákvörðunum um friðlýst svæði í sínu umdæmi. Aftur vísa ég til þess sem ég sagði áðan um það sem ég tel hafa verið tímamótalöggjöf með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2007, þar sem þetta er formfest með ákveðnum hætti. Að sama skapi teljum við í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að aðkoma náttúruverndarsamtaka þurfi að vera trygg í stjórn friðlýstra svæða, og ekki bara í formi áheyrnar.

Að endingu viljum við benda á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stofnaður verði þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á hálendinu með breytingum á lögum um téðan Vatnajökulsþjóðgarð. Þessu þarf að halda til haga, virðulegi forseti. Að sama skapi segir í stjórnarsáttmálanum að áhersla verði lögð á samtal og samvinnu við heimamenn og svæðisráðum fjölgað þessu fylgjandi. Að mati okkar í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þarf frumvarpið að taka breytingum í samhengi við ákvæði stjórnarsáttmálans, enda höfum við sameinast um það í meiri hlutanum að þetta nái fram að ganga.

Að öðru leyti held ég að ég sé búinn að gera grein fyrir þeim fyrirvörum og þeirri umræðu sem fram fór í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um þetta mál og ég veit að hæstv. ráðherra er fullkunnugt um, enda höfum við átt ansi mörg samtöl um þetta upplegg og þessa hugmynd. En ég óska líka meðlimum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd velfarnaðar í að horfa á þetta mál í samhengi annarra þeirra mála sem hæstv. ráðherra rakti ágætlega.