154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

brottfall laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997.

832. mál
[19:10]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefndar um málefni norðurslóða. Frumvarpið var unnið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í samvinnu við viðkomandi stofnanir og ráðuneyti. Frumvarpið felur í sér tillögu um samruna Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri. Til að sá samruni geti orðið að veruleika þarf að leggja niður Stofnun Vilhjálms Stefánssonar með því að fella brott lög um stofnunina. Ekki er þörf á breytingu á lögum á málefnasviði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, en áformað er að nýta heimild í lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, til að gera Stofnun Vilhjálms Stefánssonar að rannsóknastofnun sem heyri undir háskóladeild eða háskólaráð.

Tillaga þessi er hluti af umfangsmiklum stofnanabreytingum sem unnið hefur verið að í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Nú þegar liggur fyrir á þinginu frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun, frumvarp til laga um Umhverfis- og orkustofnun og frumvarp til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun.

Áform um lagasetningu og drög að fyrirliggjandi frumvarpi hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og athugasemda og unnið hefur verið úr fram komnum athugasemdum.

Í september 1995 skipaði þáverandi umhverfisráðherra samvinnunefnd um norðurslóðamálefni í samræmi við ályktun Alþingis um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Í erindisbréfi samvinnuefndarinnar var hlutverk hennar að tengja saman og treysta samstarf hlutaðeigandi stofnana sem annast hafa og annast munu rannsóknir á norðurslóðum, svo og tengsl og samstarf um málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Í kjölfarið var frumvarp um stofnunina lagt fram á Alþingi og samþykkt sem lög.

Stofnunin er sjálfstæð ríkisstofnun og samstarfsvettvangur þeirra sem sinna málefnum norðurslóða hér á landi og er ætlað að efla umhverfisrannsóknir á norðurslóðum og stuðla að sjálfbærri þróun og efla þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi á því sviði. Stofnunin hefur aðsetur á Akureyri. Stofnunin sér um að safna og miðla upplýsingum um málefni norðurslóða, stuðlar að því umhverfisrannsóknir á norðurslóðum séu samræmdar og gerir tillögur um forgangsröðun þeirra, miðlar fræðslu og er stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni norðurslóða, annast samstarf við stofnanir erlendis og skapar aðstöðu fyrir rannsóknastörf.

Í tengslum við endurskoðun á stofnanaskipulagi ráðuneytisins hefur verið unnið að greiningu á sérstöðu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Við þá greiningu var horft til ábendingar í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá árinu 2021 um stofnanir ríkisins. Í skýrslunni segir að það veki athygli að undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti heyri Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem teljist til rannsóknastofnunar og sé starfrækt í húsnæði Háskólans á Akureyri. Ástæða sé fyrir stjórnvöld að endurskoða rekstrarform þeirrar stofnunar en með hliðsjón af hlutverk hennar væri eðlilegra að hún heyrði beint undir háskólann. Að tilstuðlan ráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins hafa viðræður farið fram milli Háskólans á Akureyri og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar um samvinnu þessara stofnana og hafa viðræður einkum snúist um inntak starfsemi Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar innan háskólans. Niðurstaða viðræðnanna er sú að samstaða er um samruna þessara stofnana.

Í stefnu stjórnvalda í málefnum norðurslóða er lögð áhersla á uppbyggingu miðstöðvar norðurslóða á Akureyri, en þar fer fram ýmis starfsemi sem tengist rannsóknum, vöktun og miðlun þekkingar um norðurslóðir. Má þar m.a. nefna Norðurslóðanet Íslands, sem er samstarfsvettvangur innlendra aðila sem fjalla um norðurslóðir, og tvær skrifstofur vinnuhópa Norðurskautsráðsins. Einnig er þar skrifstofa Norðurskautsvísindanefndarinnar sem hefur skipað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum og leiðir saman opinberar rannsóknastofnanir og -samtök frá 23 löndum. Allar þessar skrifstofur, ásamt Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, eru staðsettar í Borgum, rannsókna- og nýsköpunarhúsi Háskólans á Akureyri.

Með samruna háskólans og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar gefst tækifæri til að skoða og endurmeta samstarfsmöguleika við aðra norðurslóðaaðila á Akureyri, einkum Norðurslóðanetið.

Stefnt er að því að hin nýja rannsóknastofnun undir Háskólanum á Akureyri verði vettvangur rannsókna á norðurslóðum með áherslu á þverfaglegan vísindi og starf í alþjóðlegu umhverfi. Gert er ráð fyrir að starfsfólk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, sem þar starfar við gildistöku laganna, verði starfsfólk Háskólans á Akureyri. Störf þeirra eru því ekki lögð niður heldur flutt til annarrar stofnunar með því að hún yfirtekur ráðningarsamninga starfsfólks og færast því réttindi og kjör þeirra til Háskólans á Akureyri.

Virðulegi forseti. Ég vil bara segja hér við framlagningu þessa frumvarps að þessi stofnun er mér mjög kær og ég þekki hana mjög vel, bæði sem þingmaður en ekki síður úr mínu fyrra embætti sem utanríkisráðherra. Ég get fullyrt að þar er unnið mjög gott starf sem hefur nýst okkur Íslendingum vel en ekki bara Íslendingum heldur í rauninni alþjóðasamfélaginu. Það er ekki vaninn að ráðherrar færi stofnanir eða verkefni frá sér óumbeðnir til annarra ráðuneyta. Ástæðan fyrir því að ég geri það er einfaldlega vegna þess að ég tel að það muni styrkja stofnunina og muni líka styrkja norðurslóðastarf okkar Íslendinga, sem er gríðarlega mikilvægt. Í tíð minni sem utanríkisráðherra lagði ég mjög mikla áherslu á norðurslóðastarfið og eitt af því sem var gert undir minni forystu var að koma hér með sameiginlega stefnu okkar Íslendinga þegar kemur að norðurslóðum og þar er skýrt tekið fram að Akureyri eigi að vera höfuðstaður norðurslóða á Íslandi. Ég tel að með því að ganga fram með þessum hætti þá munum við ekki bara styrkja og efla stofnunina og þær stofnanir sem hún vinnur með og þ.m.t. háskólann heldur líka Akureyri sem höfuðstað norðurslóða á Íslandi.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.