154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:52]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Spurningin er: Hvar er samvinnuandinn? Ég lít nú á mig hér sem holdi klæddan samvinnumann, en það er þá líka spurningin um það hvernig maður getur komið samvinnuandanum frá sér og miðað við umræðuna sem átt hefur sér stað í morgun og undanfarna tvo daga þá hefur okkur greinilega mistekist hvað það varðar. En þegar við hófum hér umræðu, þegar ég flutti nefndarálit meiri hlutans fyrir tveimur dögum síðan, þá sveif samvinnuandinn heldur betur yfir vötnum, ég varð ekki var við annað. En síðan, svo sem eins og gerist stundum, þá fara að berast upplýsingar og annað. En það er vissulega gott og gilt sjónarmið, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, hvað það varðar að við þyrftum að blása enn meira til að fá samvinnuandann meira hér upp á sviðið.