154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[12:06]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vera á sömu nótum og mörg sem hafa hér komið áleiðis áhyggjum sínum um formhlið málsins umfram þá efnislegu sem ég tel að sé auðvitað mjög mikilvæg. Ég myndi gjarnan vilja koma fram með afstöðu mína til þess að mér þykir ekki viðeigandi að kenna nefndasviði Alþingis um og því frábæra fólki sem þar starfar og setja einhvern veginn það sem helstu ástæðu þess að málið er ekki að fara í annað umsagnarferli. Vissulega er ástæða til að taka mark á þessum mikilvægu hagsmunaaðilum sem sannarlega hafa komið fram með mjög mikilvægar og umfangsmiklar athugasemdir, Félag atvinnurekenda, ASÍ, VR, Neytendasamtökin, SVÞ. Ég vildi bara biðja hv. formann atvinnuveganefndar að gera grein fyrir því hvers vegna — ég veit að þessu hefur kannski verið svarað — það eru ekki forsendur fyrir annarri umferð hér í dag. Þá er þetta rétti vettvangurinn hér í ræðustól í þessari umræðu að takast efnislega á um núansa sem hafa skapast í málinu.