154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[13:47]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil bara koma hérna upp í restina og þakka fyrir ágæta umræðu. Ég get tekið undir mjög margt sem hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór hér yfir áðan. Það er nú einu sinni svo að jú, heimildin er mjög víðtæk, það er alveg hárrétt. Hefðum við hugsanlega getað gert þetta einhvern veginn öðruvísi? Það má vel vera. En við skulum líka hafa það í huga að það eru enginn skyldugur til að fara þessa leið. Við horfum sömuleiðis til þess að í frumvarpið er skrifað inn þess efnis að minni framleiðendur geti notið góðs af því að eiga viðskipti við þennan stærri aðila, sem hugsanlega getur orðið. Það hefur skort á það í þessari umræðu, því miður, að menn veiti því nógu mikinn gaum hvernig smásölumarkaði er hagað hér á landi. Það er stórt atriði í þessu sem snýr að innflutningi og öðru og þeirri samkeppni sem hér er.

Að því sögðu þá erum við vissulega að stefna í það að taka hér ákveðið stórt skref fram á við, að mínu viti. Það hafa náttúrlega komið upp áhyggjur, sem eðlilegt er, um að þetta geti leitt til verri vegar en ég ítreka það að af minni hálfu, og nú þekki ég ágætlega til sem starfandi í þessari grein til 30 ára og er það enn og hef hugsað mér að vera áfram, er þetta til góðs. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að fjölbreytileiki geti aukist, sérstaklega vegna þess að menn geta hagrætt, minni aðilar geta átt viðskipti við þennan stærri og sá stærri er skuldbundinn til þess að eiga viðskipti á sanngjörnum kjörum við þennan minni aðila. Það er stórt atriði. Það höfum við ekki í dag.

Hér hefur verið rætt tölvert um bændur og að þetta geti orðið álitshnekkir fyrir bændastéttina. Það getur alveg orðið þannig fyrst um sinn en það er þá okkar, fulltrúa í atvinnuveganefnd og forystusveit Bændasamtakanna — sem sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þess efnis að þeir fagni þessu frumvarpi og óski þess heitt að þetta klárist sem fyrst, svo það sé sagt — að mæta til viðræðna við þá aðila sem hafa áhyggjur. Sömuleiðis að mæta þeim kröfum og þeim óskum sem gerðar eru til innlendrar matvælaframleiðslu, þ.e. að neytendur hafi aðgang að góðri hágæðavöru á verði sem er samkeppnishæf við innflutta góða vöru, að neytandinn hafi val. Við skulum hafa það líka í huga að við tölum oft um að neytendur velji alltaf íslenskt þegar það er í boði en í mínum huga er það nú þannig að það er veskið sem ræður og það er það sem við þurfum að horfa til til framtíðar í breyttu umhverfi, að við þurfum að geta haft þann slagkraft að geta boðið vöru á smásölumarkaði sem er samkeppnishæf við innflutta matvöru. Það er jú þannig að 90% af þeirri matvöru sem fer yfir borðið til neytenda á sér stað í smásölu, í búðunum. Þannig að það er verkefnið og verkefnið er síðan fram undan að koma þeim jákvæðu skilaboðum áfram sem þetta frumvarp á að leiða í ljós um ókomna tíð. — En takk fyrir ágæta umræðu.