154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Á þeim nótum sem andsvörum lauk þá finnst mér algerlega óboðlegt fyrir þingið að fá nefndarálitið, eins og það kemur frá meiri hlutanum inn til þingsins, til þess að samþykkja ríkisreikning þegar það er uppi ágreiningur um það hvernig á að vinna og skila ríkisreikningi. Hvaða afstöðu á þingið að taka þegar jafn margar ábendingar koma frá ríkisendurskoðanda og raun ber vitni? Á sama tíma, sem er mér algerlega framandi, var einfaldlega ekki hægt að svara því þegar ég spurði Ríkisendurskoðun á nefndarfundi hvernig þau gætu skrifað undir endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar og hvernig hægt væri, miðað við allar þær athugasemdir sem þar komu fram, að skrifa undir ríkisreikning án athugasemda. Það voru bara svona krybbuhljóð sem heyrðust frá gestunum. Ég fékk einfaldlega ekki svar við þeirri spurningu af því að það svar er ekki til staðar.

Það á auðvitað ekki að kvitta undir ríkisreikning án athugasemda þegar það eru eins alvarlegar athugasemdir og raun ber vitni og í ofanálag eru þessar athugasemdir sykurhúðaðar eins og ég veit ekki hvað. Ég legg einfaldlega til í áliti minni hluta að þessi ríkisreikningur verði ekki samþykktur. Það eru einu skilaboðin sem þessir aðilar geta meðtekið. Ef þingið kemur bara, þrátt fyrir allar þessar athugasemdir og ábendingar og ósætti, og segir „þetta er í fína lagi,“ þá er enginn hvati fyrir þau til að komast að einhverri niðurstöðu um ágreininginn — ekki neinn. Þingið verður að taka afstöðu og sýna það bakbein einhvern veginn að segja bara þvert nei, við líðum ekki svona vinnubrögð, ef fjárlaganefnd getur ekki leitt þetta í jörð og sagt þessum aðilum sem eru að rífast um það hvernig eigi að gera þetta af eða á um hvernig eigi að gera það og þeir eigi einhvern veginn að leysa það sjálfir. Það á a.m.k. ekki að samþykkja ríkisreikning á meðan ágreiningurinn er til staðar. Bara fyrirgefið, þið verðið að leysa þetta, annars fáið þið þetta ekki samþykkt. Þetta er grundvallaratriði í því hvernig við eigum að fá eitthvað lagað, að taka þá afstöðu að segja: Nei, þetta er bara ekki nægilega vel gert og þetta má ekki koma svona inn í þingsal til afgreiðslu þingsins.

Langflestir þingmenn hérna vita í rauninni ekkert um hvað þetta mál snýst, ekki neitt, mjög skiljanlega. Þetta er ákveðið torf eftir allt fjárlagaferlið og þetta eru bara svona bókhaldsatriði þegar allt kemur til alls, fullt af stöðlum sem eru rosalega tæknilegir fram og til baka. Þegar meiri hluti nefndarinnar segir bara „við mælum með að þetta sé samþykkt þrátt fyrir allan ágreininginn,“ kýs fólk auðvitað bara með því. Það hefur engar forsendur til að taka neina afstöðu. Ég segi bara að ábyrgð meiri hluta fjárlaganefndar á því að leggja svona fyrir þingið er mikil. Þetta er hundleiðinlegt mál, þetta er tæknilegt mál en þetta er samt mikilvægt mál og það er mikilvægt að gera þetta rétt. Ef fjárlaganefnd ætlar ekki að skóla þessa deiluaðila til þá á þingið að gera það og hafna þessu, senda þetta þá bara aftur til föðurhúsanna: Klárið þá þennan ágreining sjálf fyrst meiri hluti fjárlaganefndar getur það ekki. Fyrr samþykkjum við ekki þetta frumvarp.