154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Má skilja það sem svo að þrátt fyrir það sem stendur í frumvarpinu sjálfu eigi að túlka þetta rýmra og viðkomandi eigi og skuli vera gripinn og að hann muni ekki lenda í því að vera með 285.000 kr. í framfærslu á mánuði í einhvern óákveðinn tíma á meðan hann er að ganga í gegnum eitthvert færni- eða örorkumat hjá Tryggingastofnun? Ég skil það svo og mikið væri það ánægjulegt. En ég vildi gjarnan að það yrði þá tekið sérstaklega fram að það væri algjörlega hafið yfir vafa í frumvarpinu sjálfu því að það er ekki hægt að samþykkja það svona, að óbreyttu. Það vill enginn að einstaklingar lendi í þeirri gildru að vera með 285.000 kr. á mánuði í einhvern óákveðinn tíma í þeirri dýrtíð sem hér er.

Svo er það þessi grundvallarspurning: Hvenær hyggst hæstv. ráðherra löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og greiða fyrir því að hann fái að koma hér inn í þinglega meðferð þannig að við getum með gleði tekið utan um málefni fatlaðs fólks með því að vera búin að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi þeirra? Og löndin sem við erum að bera okkur saman við í sambandi við starfsgetumat, er eitthvað af þeim löndum (Forseti hringir.) sem ekki hefur þegar löggilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?