154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:21]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og við erum báðir miklir áhugamenn um að koma framfærsluuppbótinni út og ég tek því svo að hv. þingmaður muni styðja þá breytingu heils hugar með þessu frumvarpi. Þegar kemur að virknistyrknum þá er hugmyndin sú að ef það lítur út fyrir það þegar líður á atvinnuleitina að viðkomandi sé ekki að fá vinnu, þá ber Vinnumálastofnun að gera Tryggingastofnun grein fyrir því að atvinnuleit hafi ekki borið árangur og þá fer í gang það kerfi að meta þetta upp á nýtt eins og ég greindi frá áðan. Fái fólk vinnu þá fellur virknistyrkurinn niður. Það er rétt. En hins vegar verðum við að gera ráð fyrir því að ef fólk er með getu til virkni á vinnumarkaði sem er 25–50% þá séu það hærri laun sem viðkomandi ætti að fá heldur en virknistyrkurinn er, það er nú (Forseti hringir.) svona það sem við erum að horfa til að gildi þar.