154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[16:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Frumvarpið sem hér um ræðir er nýtt frumvarp um breytingar á örorkulífeyriskerfinu. Það á að stuðla að einfaldara og sveigjanlegra kerfi með auknum stuðningi og möguleikum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Ég hef hugsað mér að nálgast það þannig vegna þess að viljinn til að gera betur fyrir öryrkja er a.m.k. á sumum sviðum mjög svo vel sýnilegur en á öðrum sviðum ekki nógu vel fram settur. Þær breytingar sem koma inn í almannatryggingakerfið byggja að miklu leyti — þó svo að ég viti ekki hvort hæstv. ráðherra og starfsteymi hans hafi litið til allra þeirra mála sem Flokkur fólksins hefur mælt hér fyrir síðustu sjö árin, sem lúta öll að því að bæta hag og bæta þetta almannatryggingakerfi svo að sómi sé að, en við höfum ekki fengið mikla og jákvæða áheyrn þessarar ríkisstjórnar hvað það varðar.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar sýnir að þótt sum atriði séu í svipuðum anda og tillögur Flokks fólksins þá gengur Flokkur fólksins mun lengra í áttina að því að bæta hag öryrkja heldur en þetta frumvarp segir til um. Það sem mér finnst mest og best við frumvarpið er í rauninni þessi samhæfing og þessi einföldun þar sem almannatryggingakerfið og lög um félagslega aðstoð og annað slíkt er allt sett í einn grunn. Það ætti að einfalda öllum að skilja kerfið betur heldur en nú er, því að þetta almannatryggingakerfi er algjört völundarhús. Við höfum ítrekað sagt að þetta sé hálfgert bútasaumað skrímslateppi sem fæstir skilja. Oft á tíðum getur ekki einu sinni sjálft starfsfólkið hjá Tryggingastofnun ríkisins með nógu skilvirkum og góðum hætti upplýst öryrkja um rétt þeirra eða hver staða þeirra er hverju sinni.

Þetta frumvarp er mjög svo starfsgetumiðað og markmiðið er að hvetja fólk til virkni og atvinnuþátttöku með auknum frítekjumörkum og nýjum úrræðum eins og hlutaörorkulífeyri og virknistyrk. Þegar er verið að tala um virknistyrkinn höfum við í Flokki fólksins áhyggjur af því að í gegnum Vinnumálastofnun skuli verið að brúa bilið frá því að einstaklingur er metinn til ákveðinnar virkni á vinnumarkaði, en þá er hann að fá greiddar 285.000 kr. frá Tryggingastofnun, að það eigi að brúa bilið frá þessu á meðan verið er að leita að atvinnu við hæfi fyrir þennan einstakling, í rauninni að brúa bilið upp í það sem hann hefði haft og hann hafði áður sem fullgildur öryrki á greiðslukerfi almannatrygginga. Við höfum mestar áhyggjur af því að þrátt fyrir góðan vilja og yfirlýsingar muni hann, ef ekki finnst starf við hæfi innan tveggja ára aðlögunartímans og tímans sem fer í það fyrir hann að leita að vinnu við hæfi, lenda á milli skips og bryggju og þá muni hann sitja eftir með 285.000 kr., kannski í tvær vikur, mánuð, tvo mánuði, þrjá mánuði, við vitum það ekki. Ég veit ekki hvort þetta kerfi verður skilvirkara með einhverjum breytingum, ég get ekki áttað mig á því en kerfið er ekki skilvirkt, það er alveg ofboðslega óskilvirkt. Einstaklingar sem eru t.d. á endurhæfingarlífeyri hafa iðulega þurft að bíða og maður er að sjá bara á vefnum, en öryrkjar eru með sérstakan vef, nánast neyðaróp þeirra sem hafa dottið á milli skips og bryggju og eru þá ekki einu sinni með 285.000 kr. sem þeim eru tryggðar þarna miðað við að þau væru að leita að starfi við hæfi á því tímabili, heldur hafa þau hreinlega misst hverja einustu krónu.

Frumvarpið er sem sagt starfsgetumiðað og þetta er það sem við höfum haft sérstakar áhyggjur af. Okkur þykir skortur á skýrari útfærslu á nýja samþætta matskerfinu og að það sé í rauninni ófullnægjandi aðlögun að vinnumarkaði fyrir öryrkja. Eins og við hefðum viljað sjá það hefði verið betra að byrja á því að skoða hver sé raunverulegur möguleiki á að koma öryrkjum í vinnu sem hafa fengið mat um að hafa ákveðna starfsgetu. Við í Flokki fólksins sjáum það ítrekað að hér er í rauninni verið að koma með góðar hugmyndir sem skortir grunninn undir á margan hátt. Það er voða mikið um að skipa stýrihópa og hina og þessa hópana en einstaklingarnir, sem eru í rauninni ekkert annað en tilraunaverkefnið sjálft, eru í mikilli óvissu og líður alls ekki vel.

Við höfum helst gagnrýnt að það liggi ekki fyrir mat á áhrifum breytinganna á núverandi öryrkja og að ekki sé nægilega vel hugað að kjörum þeirra sem verst standa. Þá er bent á að lækkun aldursuppbótar og heimilisuppbótar geti skapað ójöfnuð. Það er, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson bendir réttilega á, í rauninni algerlega galið að ef þú fæðist það fatlaður að þú átt enga möguleika út alla þína starfsævi, ekki nokkurn tíma, að fara á vinnumarkað eða nokkuð annað en að vera 100% öryrki eða 75%, eins og full örorka er metin, 75% öryrki með fulla framfærslu almannatrygginga, þá hlýtur náttúrlega að vera galið að eftir 24 ára aldur skulir þú eiga að skerðast í aldurstengdri örorkuuppbót um 5% á ári. Þú átt engan möguleika á að vera metinn inn á vinnumarkaðinn. Eins og hæstv. ráðherra bendir á er núna verið að tala um að ef það er bersýnilegt eftir 24 mánuði, eða þetta heildarmat sem einstaklingur gengur í gegnum um hvort hann er hæfur til að sinna hlutastarfi eða ekki, að viðkomandi er alls ekki í nokkru einasta ástandi til að sinna nokkurri vinnu þá þurfi hann ekki að gangast undir þetta heildstæða mat. Svona finnst mér í rauninni að eigi líka að fara með þá sem eru fæddir í og eru í algjörum ómöguleika hvað lýtur að því að geta nokkurn tíma skapað sér betra viðurværi. Að mati margra þarf frumvarpið frekari útfærslu og skýrari áhrif breytinganna þurfa líka að liggja fyrir. Það er engu að síður almennt talið að frumvarpið sé skref í rétta átt og með góðu samráði og endurbótum geti það orðið til hagsbóta fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Mig langar að kíkja aðeins á stefnu Flokks fólksins og bera hana pínulítið saman við þetta frumvarp. Við í Flokki fólksins höfum t.d. talað um að afnema allar skerðingar. Við höfum verið með kostnaðinn og sýnt fram á hvernig við ætlum að greiða fyrir það. Ætlum við að hækka skatta eða ætlum við að ráðast eitthvað inn í ríkissjóð eða eitthvað slíkt? Nei, við ætlum að afnema undanþágureglur lífeyrissjóða frá staðgreiðslu við innborgun. Við ætlum að nýta þá fjármuni, sem eru á bilinu 60–70 milljarðar á ári, til að koma til móts við þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu, til þess að afnema allar skerðingar. Í frumvarpinu er dregið úr skerðingum en þær eru því miður ekki afnumdar að fullu. Flokkur fólksins vill leyfa öryrkjum að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga og án endurmats. Við höfum talað um það núna í fimm eða sex ár, eftir að hafa sent eftir upplýsingum erlendis frá um stöðu öryrkja t.d. í Hollandi og Svíþjóð þar sem reynt var að aðlaga öryrkjana meira að vinnumarkaði og hvetja þá til að taka þátt. Þar var engin Vinnumálastofnun eða hliðargreiðslur sem komu til einstaklingsins og hann var ekki látinn halda áfram að vera í einhverju limbói með það. Honum var einfaldlega gefinn kostur á því að fara út á vinnumarkaðinn ef hann treysti sér til þess að vinna og hann hafði ákveðinn aðlögunartíma þar án þess að vera skertur en var auðvitað skertur greiðslu frá hinu opinbera. Auðvitað er ekki hægt að vera með þaklausar greiðslur launa, það kemur náttúrlega að því í kerfi Tryggingastofnunar að þeir sem eru komnir með ákveðið margar krónur í tekjur missa í öllu réttinn til greiðslna frá Tryggingastofnun, samanber sjálfa mig og hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson. Eftir að við förum inn á Alþingi Íslendinga og erum orðnir öryrkjar á ofurlaunum þá höfum við ekki lengur þörf á því að fá aðstoð Tryggingastofnunar sem öryrkjar.

Við vildum að þetta yrði reynt hér og við erum búin að tala um þetta í sennilega fimm ár, eftir að við fengum gögnin send frá Hollandi og Svíþjóð, sem sýndu fram á það svo að ekki varð um villst að 32% allra öryrkja í Svíþjóð sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði, ég er að segja 32%, þeir skiluðu sér ekki inn í kerfið aftur. Þeir gengu algerlega út úr kerfi örorku í Svíþjóð. Við höfðum hins vegar ekki upplýsingar um það hvað stórt hlutfall öryrkjanna reyndi fyrir sér á vinnumarkaði en a.m.k. fengum við upplýsingar um að 32% þeirra sem það gerðu skiluðu sér ekki inn á kerfið aftur. Við höfum því verið að ítreka það og benda á að það myndu í rauninni allir vinna. Allir myndu vinna, bæði við sem samfélag í heild sinni, ríkissjóðurinn okkar, sem fær greiddan tekjuskatt af þessum einstaklingum, og einstaklingurinn sjálfur sem er kominn með fulla virkni og er glaður. Það þarf oft, sérstaklega með andlega veika einstaklinga sem eru líkamlega hraustir og hafa í rauninni dottið á seinni tímum inn á þetta kerfi, dálítið stóran hvata til að hjálpa þeim til sjálfshjálpar. Þá finnst mér sá hvati vera heilbrigðari í því formi að gefa þeim kost á að fara út að vinna og verðlauna þá. Umbun hefur alltaf verið í mínum huga betri en allt annað, betri heldur en að koma með: Þið fáið 285.000 kr. á mánuði, við ætlum að brúa eitthvert bil fyrir ykkur í smátíma og svo ætlum að hjálpa ykkur að reyna að finna vinnu við hæfi. Það eru náttúrlega margir í þessu kerfi sem er einmitt þannig statt um að þeir treysta sér ekki til þess að reyna að útvega sér vinnu sjálfir. Um þá ætti þetta að gilda en það ætti líka að gefa öðrum kost á að nýta það öðruvísi. Við ættum að gera það.

Við í Flokki fólksins vildum líka hækka skattleysismörk upp í 400.000 kr. og það var skatta- og skerðingarlaust. Við vildum vera með fallandi persónuafslátt. Við sem erum með háar tekjur sögðum: Við þurfum ekki á þessum persónuafslætti að halda. Færum hann niður til þeirra sem virkilega búa við bág kjör. Þessar 400.000 kr., skatta- og skerðingarlaust, eru á pari við laun upp á 609.000 kr. Það nálgast meðallaun í landinu á meðan hækkunin sem nú er gert ráð fyrir með þessu frumvarpi er upp í 380.000 kr. Við skulum bara átta okkur á því að það er fyrir skatta. Þessi fátækt er skattlögð fullum fetum, algerlega. Hún er fullum fetum skattlögð þannig að einstaklingurinn sem er núna kominn í 380.000 kr. er ekki að fá nema ríflega um 320.000 kr. útborgað. Ég veit ekki hvernig er hægt að segja að við séum að gera vel við einstakling sem er í rauninni bundinn við það að hafa ekki hærri tekjur en sem nemur í kringum 320.000 kr. á mánuði. Við erum í ótrúlega dýru landi og við erum með alveg ofboðslega erfiðan markað hér, bæði fasteignamarkað og leigumarkaðinn eins og hann leggur sig en þessir einstaklingar eru allir dæmdir inn á leigumarkað. Þessir einstaklingar eru ekki þeir sem fá greiðslumat og geta farið út í það að reyna að fjárfesta í fasteign — engan veginn.

Ég hef í rauninni ekki alveg skilið enn þá hvers vegna þetta er ekki skoðað heildstætt, vegna þess að í þessu tilviki þá eru í rauninni allir að hagnast á því. Það eru allir hagnast á því félagslega og heilbrigðislega. Alla vega líður fólki betur þegar það hefur í sig og á heldur en ef það er alltaf í niðurbroti. Ég var t.d. að lesa bara rétt fyrir augnabliki síðan á öryrkjasíðunni: Erum við að fá einhvern stuðning um páskana? Við eigum engan pening núna. Nú eru allir okkar peningar búnir. Það er verið að spyrja: Erum við að fara að fá einhvern páskabónus? Af því að það hefur komið jólabónus tvisvar til öryrkja eða þrisvar. En þetta frumvarp sem við erum að fjalla um hér, það tekur ekki á þessum skattleysismörkum, því miður.

Síðan er það leiðrétting á 62. gr. almannatrygginga, sem var áður 69. gr. Við í Flokki fólksins höfum ítrekað talað fyrir því að hún verði látin standa. 1. mgr. greinarinnar segir til um að allar kjarabætur til almannatryggingaþega fylgi launaþróun í landinu en hingað til hefur verið valið að láta þær fylgja vísitölu neysluverðs sem hefur í rauninni orðið þess valdandi að frá því í efnahagshruninu í kringum 2008 hefur kjaragliðnunin verið slík að hún er að nálgast þessa dagana hátt í 100.000 kr. á mánuði. Frumvarpið tekur ekki á 62. gr. laganna. Hækkanir munu áfram, samkvæmt því, fylgja neysluvísitölu. Þannig að í raun og veru er frumvarpið því miður ekki að tryggja að við látum þessa leiðréttingu, sem kemur 1. janúar ár hvert, fylgja launaþróun í landinu. Því miður tekur það ekki á því. Síðan er það gjaldfrjáls tannlæknaþjónusta fyrir börn, aldraða og öryrkja. Því miður tekur þetta frumvarp ekki á því og það eru mjög margir sem geta ekki nýtt sér það. Flokkur fólksins vill að réttur til aldursviðbótar haldist óbreyttur. Við viljum ekki að þegar einstaklingur verður 67 ára gamall þá missi hann aldurstengdu örorkuuppbótina sína og lækki þar af leiðandi strax í launum. En þetta frumvarp tekur því miður heldur ekki á því. Það er svo margt, ég er varla byrjuð, herra forseti, ég ætla að biðja um að fá að fara aftur í ræðu.