154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

Störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Launajafnrétti er og verður stærsta jafnréttismál samfélagsins alls. Hæstv. forsætisráðherra hefur skilað af sér skýrslu aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði núna í janúar síðastliðnum og ætlunin er að koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa í því skyni að útrýma launamun kynjanna sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum, störfum sem áður voru einfaldlega unnin ókeypis.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en fagnað þessum áherslum hæstv. forsætisráðherra af öllu hjarta, ekki síst í aðdraganda kjarasamninga sem núna eru yfirvofandi hjá opinbera geiranum. Samkvæmt svörum forsætisráðuneytis við skriflegri fyrirspurn sem ég lagði fram í tilefni kvennaverkfallsins á haustdögum um vinnuaðferðir hópsins þá liggur ekki enn fyrir kostnaðarmat á þeirri leiðréttingu sem viðbúið er að muni fylgja henni og langvarandi vanmati á virði kvennastarfa. Ég veit að ég fer ekki fram á lítið, en ef vel tekst til þá myndi þetta fela í sér mesta árangur í jafnréttisbaráttu frá því að almennum leikskólum var komið fyrir í byggðum landsins. Hér þarf hins vegar að ganga í takt, virðulegur forseti. Kallið mig svartsýna, en ég sé ekki að við eigum ríkisstjórn sem hefur vilja til að fjárfesta í jafnrétti þegar hér hefur ekki þornað blekið á nýundirrituðum kjarasamningum almenna markaðarins þegar sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa risið upp á afturlappirnar yfir atriðum eins og gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hæstv. fjármálaráðherra hefur fátt annað um málið að segja en að velferðin okkar sé einfaldlega fjármögnuð með annarra manna fé.

Virðulegi forseti. Þetta eru peningarnir okkar, peningar sem við eigum að nota til að fjárfesta í fólki, fjárfesta í jafnrétti sem eru mannréttindi sem við getum ekki ítrekað ætlast til að konur semji frá sér. Við töpum öll á kynbundnu ójafnrétti.