154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

eignarréttur og erfð lífeyris.

147. mál
[13:35]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Já, ég kem hérna upp til tilbreytingar og mæli nú fyrir tillögu til þingsályktunar um eignarrétt og erfð lífeyris. Með mér á þessari tillögu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Það voru víst ekki fleiri alþingismenn sem þáðu að vera meðflutningsmenn á þessari tillögu okkar sem okkur í Flokki fólksins þykir meira en eðlileg, sanngjörn og réttlát:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2024 sem hafi að markmiði að tryggja eignarrétt og ráðstöfunarrétt fólks á lífeyri og að heimila erfð lífeyrisréttinda. Frumvarpið tryggi m.a. að:

a. fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður,

b. við andlát gangi lífeyrisréttindi að erfðum til maka og barna að fullu; erfingjar geti valið hvort lífeyrir verði greiddur út eða hvort réttindin flytjist til erfingja.“

Í greinargerð kemur fram að tillaga þessi hefur verið lögð fram á 151., 152. og 153. löggjafarþingi, 100. mál, en svo einkennilegt sem það er nú, herra forseti, náði hún ekki fram að ganga og er því lögð fram að nýju óbreytt.

Þegar lífeyriskerfinu var komið á fót í kjölfar kjarasamninga árið 1969 var almennur sá skilningur launafólks að skyldubundin gjöld í lífeyrissjóði myndu tryggja launafólki eignarrétt á lífeyrisréttindum sínum. Síðan þá hefur eignarréttur fólks á lífeyri ítrekað verið takmarkaður og skilyrtur, ýmist með lögum og reglugerðum eða samþykktum lífeyrissjóða. Fólk hefur almennt lítið val um það hvernig lífeyrissparnaður þess er ávaxtaður. Um það ráða stjórnir lífeyrissjóðanna mestu.

Lífeyrissjóðir hafa gert mistök í fjárfestingum eins og allir þekkja og stundum hafa þau mistök orðið dýrkeypt fyrir sjóðfélagana, t.d. töpuðu þeir um 600 milljörðum kr. í kringum efnahagshrunið 2008, í kjölfarið á því. Í slíkum tilvikum eru möguleikar sjóðfélaga til að krefjast breytinga eða hafa áhrif takmarkaðir og sjóðfélagi sem er ósáttur við rekstur lífeyrissjóðs hefur jafnan ekki önnur úrræði en að greiða atkvæði um hvaða fulltrúi verkalýðsfélags verði skipaður í stjórn lífeyrissjóðsins eða skipta um lífeyrissjóð. Þá sitja fulltrúar atvinnurekenda tíðum einnig í stjórnum lífeyrissjóða en gagnvart þeim hefur sjóðfélagi almennt engin úrræði. Ég velti fyrir mér: Hvað eru fulltrúar atvinnurekenda að gera inni í okkar lífeyrissjóðum? Í dag eiga þeir bara akkúrat ekkert erindi þangað, ekki neitt, ekki ef við ætlum að viðurkenna það að þetta sé í rauninni kjarabót fyrir lífeyrisþegann sjálfan, að þetta sé í rauninni okkar eign. Sumir lífeyrissjóðir hafa sett samþykktir sem heimila kjör stjórnarmanna á aðalfundi þar sem sjóðfélagar geta greitt atkvæði. Þeir eru þó alger undantekning frá reglunni. Þá er oft misbrestur á að sjóðfélagar séu upplýstir um þau réttindi sem þeir hafa gagnvart stjórn lífeyrissjóðs á grundvelli sjóðsaðildar. Þótt lífeyrisréttindi eigi að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar er varla hægt að skilgreina lífeyrisréttindi sem eign vegna þess hve lítið forræði sjóðfélagar hafa á lífeyrisréttindum sínum. Því er nauðsynlegt að breyta lögum þannig að þau tryggi fólki viðunandi ráðstöfunarrétt á réttindum sínum. Ef lög veita fólki ekki rétt til að hafa áhrif á hvernig réttindin eru varðveitt er lögbundin skylda um greiðslu iðgjalda í raun og veru skattheimta með óljósu vilyrði um endurgreiðslu einhvern tíma seinna.

Flokkur fólksins leggur til að fólk fái að velja á milli þess að greiða í sjóð sem veitir hlutfallsleg réttindi eða að greiða inn á sérgreindan reikning sem hefur að geyma inneign þess. Fólk ætti að geta valið milli þess hvort lífeyrissparnaður þess sé nýttur í áhættusamar eða hófsamar fjárfestingar. Mörgum blöskrar þær ákvarðanir sem lífeyrissjóðir taka um ráðstöfun sparnaðar þeirra en hafa lítil sem engin úrræði á móti. Sjóðfélagi á að hafa val um það hvort lífeyrissparnaður hans er nýttur í að fjármagna byggingu kísilvers eða í kaup á verðtryggðum skuldabréfum. Því er lagt til að Alþingi feli ráðherra að leggja fram frumvarp sem tryggi fólki val á milli þess hvort lífeyrissparnaður þess veiti hlutfallsleg réttindi eða verði geymdur á sérgreindum reikningi og að sjóðfélagi geti þá valið milli sparnaðarleiða. Þannig geti sjóðfélagi sem dæmi valið hvort lífeyrissparnaður hans verði ávaxtaður með útlánum til t.d. húsnæðiskaupa. Hvernig haldið þið að það myndi nú nýtast unga fólkinu okkar í dag ef það hefði val um að greiða allan lífeyrissparnað sinn beint inn á höfuðstól til að mynda íbúðalánsins? Val um það og líka að fólk hafi val um að varðveita lífeyriseign sína í skuldabréfum eða að hún sé nýtt í áhættusamar fjárfestingar.

Meðal þeirra takmarkana og skilyrða sem gilda um lífeyri fólks er sú regla að lífeyrisréttindi falla niður við andlát sjóðfélaga. Því erfast lífeyrisréttindi í skyldubundnum lífeyrissjóðum almennt ekki til eftirlifenda. Eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar tryggir m.a. rétt til að ráðstafa eignum til eftirlifenda við andlát. Þessi réttur er skertur þegar lög kveða á um að réttindi sjóðfélaga falli niður við andlát. Hvernig er hægt að reyna að telja fólki trú um að þetta sé eignarréttur, að þetta sé ákveðin trygging til efri áranna, að þetta sé ákveðinn hluti af þinni kjarabót í kjarasamningum? Það er ekki langt síðan það var verið að hækka þetta hlutfall úr 11,5% í 15,5%. Þetta eru ekki smáaurar, virðulegi forseti, þannig að þegar lög kveða á um að réttindi sjóðfélaga falli niður við andlát þá er það náttúrlega stórkostleg skerðing á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Lífeyrissjóðum er heimilt að kveða í samþykktum sínum á um rýmri rétt eftirlifenda en sá réttur er sjaldan miklu meiri en hið lögbundna lágmark. Sumir lífeyrissjóðir bjóða þó upp á erfanlegan lífeyrissparnað en þeir eru því miður í miklum minni hluta. Heimild er í lögum til að kveða á um skiptingu lífeyrisréttinda milli hjóna en það eru því miður allt of fáir sem nýta sér þá heimild, enda held ég að þeir viti hreinlega ekki af henni. Í stað þess að lífeyrisréttindi erfist er eftirlifandi maka aðeins tryggður makalífeyrir í tvö ár. Þetta er ákveðin meginregla sem hefur verið fylgt hér og eftirlifandi börnum er tryggður barnalífeyrir til 18 ára aldurs. Hvað verður þá um lífeyrissparnað hins látna, þess sem er búinn að vera að vinna og vinna og hefur verið lögþvingaður til að greiða í ákveðinn lífeyrissparnað og þetta á nú aldeilis að koma sér vel fyrir hann seinna meir? Ég hefði trúað því að enginn sem fellur frá hefði gert annað en að hugsa: Þegar ég fell frá hefði ég gjarnan viljað tryggja eftirlifandi fjölskyldu afkomu eins og kostur er. Ég hefði viljað að fólkið mitt, fjölskyldan mín, makinn minn, börnin mín, fengju í rauninni það sem ég hef verið lögþvingaður til að greiða í lífeyrissjóð alla mína starfsævi. En það er ekki svo, því miður. Það er ekki svo vegna þess að Flokkur fólksins ræður engu um það. En Flokkur fólksins er hér að koma ítrekað með tillögur um að svoleiðis verði það, þó að það sé við litlar undirtektir þingheims almennt. Það sem verður um eign einstaklingsins þegar hann fellur frá er að hún fer bara í hítina, hún bara dreifist inn í sjóðinn og verður þar þannig að aðrir sjóðfélagar eru að græða nokkrar krónur á meðan fjölskylda hins látna verður fyrir verulegu tekjufalli.

Við ættum að hlusta á raddir þeirra sem hafa upplifað þessa hlið kerfisins, sem hafa misst ástvini og orðið fyrir tekjufalli, þeirra sem hafa þurft að flytja af fjölskylduheimili í minna húsnæði eða leita aðstoðar hjálparsamtaka til að ná endum saman af því að þeir fengu ekki að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað heimilisföður eða -móður sem fallin er frá. Allt það erfiði þrátt fyrir að hinn látni hafi átt fjárhagsleg réttindi sem hefðu ella staðið undir framfærslu eftirlifenda, að hugsa sér, sem þarf í rauninni að brjóta upp heimilishaldið sitt og flytja eitthvað annað af því að þau fá ekki að nýta áunninn rétt fjölskyldumeðlims sem fallinn er frá. Hví ekki? Hví ekki að leyfa fjölskyldu hins látna sjóðfélaga að njóta af lífeyrissparnaði hans? Er það ekki sanngjarnara en í rauninni að sparnaði hans sé deilt niður á sjóðfélaga í heild sinni? Það er kannski orðið tímabært að sjóðfélagar fái eitthvað um það að segja.

Eins og ég segi, hæstv. forseti, hefði ég óskað þess að allur þingheimur hefði verið á þessu máli. Við erum búin ítrekað að koma með alls konar breytingar og tillögur um betra og bættara kerfi á öllum sviðum og þar á meðal á sviði lífeyrissjóðanna. Við höfum t.d. kallað eftir því og það furðar mig að það skuli ekki vera gert. Það eru aðeins lífeyrissjóðir — ég ætla kannski ekki alveg að alhæfa því að ég man ekki hvort það eru ákveðin félagasamtök, góðgerðarsamtök og annað slíkt, sem eru undanþegin staðgreiðslu skatta. Þau eru undanþegin staðgreiðslu skatta þegar þau greiða launin. Þegar launin eru greidd þá verður staðgreiðslan eftir inni, í þessu tilviki í lífeyrissjóðnum. Þegar við erum að fá útborgað og við erum að borga okkar skatta þá er tekinn lífeyrissjóður af okkur og hann fer inn í hítina og þar eru ekki teknir skattar. Hins vegar þegar þú ert orðinn gamall eða fúinn eða hefur lent í slysi og ert lúinn og þarft á því að halda að fá að nýta áunninn lífeyrisrétt þá er tekinn af því skattur. Ekki einn einasti lífeyrisþegi, ekki einn einasti sem ég hef spurt, hefði frekar viljað láta lífeyrissjóðina gambla með peningana sína á starfsævinni heldur en að fá að greiða staðgreiðslu af honum strax og fá hann óskiptan greiddan út eftir að starfsævinni lýkur eða eftir að viðkomandi hefur þurft að nýta hann vegna sjúkleika eða örorku, ekki einn einasti. Þetta myndi gefa ríkissjóði hvorki meira né minna en hátt í 70 milljarða á ári í umframtekjur. 70 milljarðar á ári, hvað gætum við gert fyrir það, hæstv. forseti? Hvað gætum við gert við 70 milljarða á ári til þess að jafna og rétta samfélagið okkar, gera það meira samfélag fyrir okkur öll, gera það meira samfélag þar sem fólk er ekki skilið út undan, eins og við erum að horfa ítrekað upp á? Hvað gætu 70 milljarðar gert í því að reyna að sporna við og koma í veg fyrir vaxandi fátækt í landinu? Hvað gætu 70 milljarðar gert í því að aðstoða börnin okkar þannig að þau séu ekki jaðarsett vegna fátæktar, aðstoða við allar tómstundir og hjálpa þeim að komast á legg og fá að njóta þess sem þau fengu í vöggugjöf?

70 milljarðar myndu skipta okkur máli og það erum við að heyra nú þegar verið er að tala um að selja hitt og selja þetta. Við heyrum talað hér ítrekað núna um t.d. 80 milljarða útgjöld sem ríkissjóður er að fara að leggjast í næstu fjögur árin, 80 milljarðar, 20 milljarðar á ári til að koma til móts við kjarasamninga svo þeir gætu náð fram að ganga, kjarasamningar til fjögurra ára. Þá var verið að velta fyrir sér hvernig við ættum að fjármagna þessa 20 milljarða. Eigum við að taka lán eða eigum við að hækka skatta eða hvað eigum við aftur að gera? Það þarf ekki að taka lán. Það þarf ekki að hækka skatta. Það er enginn sem myndi ekki vilja frekar taka 70 milljarða út úr lífeyrissjóðakerfinu og afnema þessa undanþágureglu við staðgreiðslu á innborgun í lífeyrissjóði. Enginn, ekki nokkur einasti maður nema þeir sem sinna kerfinu, hanga á því eins og hundar á roði. Inn í þetta kerfi flæða yfir 200 milljarðar kr. á ári, við skulum átta okkur á því. Þetta er lífeyrissjóðakerfi sem státar af hátt í 7.000 milljarða eign. Það er algjört lágmark að við sem eigum þetta kerfi fáum a.m.k. að nýta það sem við höfum lagt í það krónutölulega séð á starfsævinni þegar við erum fallin frá, að það sé viðurkennd okkar eign og eftirlifendur, maki og börn, fái að njóta ávaxtanna sem við börðumst fyrir í gegnum starfsævina.