154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

eignarréttur og erfð lífeyris.

147. mál
[13:50]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti, hv. þingheimur, kæra þjóð. Ég þakka Ingu Sæland fyrir þessa dásamlegu þingsályktunartillögu sem hefur að gera með að varðveita framtíð okkar sem verðum eldri og ég er nú einn af þeim, takk fyrir kærlega. Mig langar að setja þetta í eitthvert samhengi, það sem Inga er að tala um hér, að einstaklingar sem leggja í séreignarsjóð eða lífeyrissjóð fái að velja um það hvort öll upphæðin fari í séreignarsjóð eða hvort hún fari í sameignarsjóð og séreignarsjóð. Ég vil meina að við eigum að geta valið um það þegar við hefjum okkar starfsferil hvaða sparnaðarleið við viljum og hvernig við ávöxtum og hvað við gerum við lífeyrissjóðsgreiðslur. Þannig er mál með vexti að samkvæmt núverandi kjarasamningum, sem búnir eru að vera í gildi í nokkur ár, borgar launagreiðandi 11,5% í lífeyrissjóð á móti 4% sem starfsmaðurinn leggur fram af sínum launum. Þetta gerir 15,5%. Síðan er það þannig að ef viðkomandi starfsmaður vill spara meira og leggur fram önnur 4% þá er atvinnuveitandinn skyldugur til þess að leggja fram 2% á móti þeirri greiðslu þannig að það eru 6%. Samtals væru þetta því 21,5% sem færu í lífeyrissjóðsgreiðslur.

Gefum okkur það að einstaklingur sé með 800.000 kr. á mánuði, sem er nú ekkert svo brjálæðislega há tala í þessu umhverfi sem við búum í í dag. Hann leggur í lífeyrissjóð. Nú tek ég fram að ég legg til að allir leggi í séreignarsjóð alla upphæðina. En þessi einstaklingur sem er með 800.000 kr. á mánuði leggur í séreignarsjóð í 40 ár og að 40 árum liðnum, á 2% vöxtum, sem eru ekki háir vextir, á hann í sjóði 127 milljónir eftir 40 ár, sem þýðir að á næstu 15 árum þar á eftir er hann með vel yfir 700.000 kr. á mánuði í lífeyrissjóðsgreiðslur sem er nánast jafn mikið og hann er að fá í mánaðarlaun allt sitt líf. Ef hann leggur aftur á móti þessa sömu upphæð í sjóð í 45 ár þá á hann 151 milljón í sjóði að loknum starfsferlinum. Og í dag, miðað við það að fólk lifir lengur, er ekkert fjarri lagi að ímynda sér að hver og einn geti unnið í 45 ár og lagt í lífeyrissjóð allan tímann. Þetta þýðir að sá sem leggur í séreignarsjóð í 45 ár á 2% vöxtum á 151 milljón í sjóði, sem þýðir það að hann fær vel yfir 850.000 kr. í mánaðarlaun næstu 15 ár á eftir. Hætti menn að vinna sjötugir þá dugir þetta til 85 ára aldurs. Hætti maður að vinna 75 ára, sem allt stefnir nú í í dag, þá er hann með sömu laun og hann hefur alltaf haft og rúmlega það í næstu 15 ár þar á eftir og til níræðs. Ef þessi einstaklingur fellur frá, við skulum segja bara skömmu áður en hann nær þessum aldri, þá á hann þetta í sjóðnum og þetta erfist ýmist til eiginkonu, eiginmanns, barna eða þeirra erfingja sem til falla.

Nú skulum við taka annan útreikning að gamni, um einstakling sem er með 1.200 þús. kr. á mánuði, sem eru jú há laun, há upphæð, en það er stór partur þjóðarinnar sem er með þetta í laun í dag. (IngS: Ekki okkar fólk.) Ég veit, ekki okkar fólk. En það er samt sem áður þannig, ef við hugsum um hag allrar þjóðarinnar, að sá sem er með 1.200 þús. kr. á mánuði á 212 milljónir í sjóði eftir 40 ára sparnað og allar þessar upphæðir erfast. Það þýðir það að eiginkona, eiginmaður, börn njóta þess sem búið er að leggja í sjóð. Í dag, eins og Inga sagði áðan, fær eiginkona greiðslur úr lífeyrissjóði næstu tvö ár á eftir. Það er ósanngjarnt því að viðkomandi er búinn að spara alla þessa upphæð og á þetta raunverulega inni í lífeyrissjóðakerfinu.

Þess vegna legg ég til að hver og einn einstaklingur hafi leyfi til þess að velja um það í upphafi síns starfsferils hvort hann leggi í séreignarsjóð eða hvort hann fari í þetta hefðbundna lífeyrissjóðakerfi, fari í sameignarsjóð og séreignarsjóð, bland í poka.