154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[16:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Sú ríkisstjórn sem hér starfar og hefur nú tekið breytingum eftir brotthvarf fyrrverandi forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, ný ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar, hefur skuldbundið sig til að ná árangri í lykilmálum eins og ríkisfjármálum, orkuvinnslu, öryggis- og varnarmálum og málefnum hælisleitenda. Sú ríkisstjórn sem starfað hefur í tæp sjö ár hefur tekist á við ótal ytri áskoranir sem við þekkjum öll. Það hefur verið krefjandi en í meginatriðum tekist. Þar nægir að nefna að viðsnúningurinn í efnahagsmálum hefur verið mun hraðari en nokkur þorði að vona. Sterkur efnahagur er grunnurinn að öllu því sem skiptir máli fyrir samfélag sem vill geta boðið upp á lífskjör eins og þau gerast best. Þetta vitum við og þess vegna skiptir þetta máli fyrir okkur öll. Þrátt fyrir að samsetning hagkerfisins hafi verið einstaklega berskjölduð fyrir afleiðingum heimsfaraldursins hefur hagvöxtur á mann frá árinu 2019 verið í meðallagi á Norðurlöndunum sem er frábær árangur í ljósi aðstæðna. Hagvöxtur árið 2022 var sá mesti í um hálfa öld.

Eins og eðlilegt er þegar þrír ólíkir flokkar koma saman þá þarf útsjónarsemi og þolinmæði til að leysa úr málum farsællega fyrir land og þjóð, nokkuð sem á nú reyndar við hvort sem flokkarnir eru þeir þrír sem mynda þessa ríkisstjórn eða aðrir þrír eða fleiri. Við ætlum að halda áfram því verkefni og verkefnin eru næg og ærin. Allt sem við gerum er háð því að halda tökum á efnahags- og ríkisfjármálunum. Þetta er augljóst og sem fyrr segir hefur gengið miklu betur en nokkur þorði að vona. Hér er fullt atvinnustig sem er langt í frá sjálfsagt og þau vandamál sem við eigum við eru að vissu leyti afleiðing af því að hér gengur vel. Þar má nefna of mikla verðbólgu, háa vexti og hækkun húsnæðiskostnaðar þrátt fyrir metuppbyggingu, enda hefur fólksfjölgun hér á landi verið sú mesta í allri okkar heimsálfu síðastliðin ár.

Við þurfum að byggja áfram undir stoðir verðmætasköpunar til lengri tíma en verkefnið núna er að ná niður verðbólgu. Gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og aðgerðir stjórnvalda í þágu þeirra eru gríðarlega mikilvægur áfangi í þeirri vinnu. Sá árangur er samfélaginu öllu mjög verðmætur. Áframhaldandi framfarir í ríkisfjármálum eru ekki síður mikilvægar og í þeirri fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og verður að vonum kynnt á næstu dögum eru hagræðingar og áætlanir um að spara fyrir aðgerðum kjarasamninga í fyrsta forgangi. Það þýðir að við höfum þurft að forgangsraða og já, það var krefjandi vinna en það var eðlileg krafa og ætti að vera í fyrsta forgangi alltaf.

Í ljósi aðstæðna eða nánar tiltekið lakari efnahagshorfa til skamms tíma, mikils kostnaðar vegna jarðhræringa í Grindavík og kostnaðarsamra kjarasamninga auk ýmissa annarra áskoranna er ég sátt við þá fjármálaáætlun sem unnin var á minni vakt í því ráðuneyti sem ég hef nú kvatt. Þar verður forgangsraðað á útgjaldahliðinni. Þessari stöðu verður ekki mætt með nýjum skattahækkunum. Henni verður ekki mætt með því að taka meira af skattgreiðendum heldur með eðlilegri kröfu sem við gerum á okkur sjálf, að fara betur með almannafé. Síðan er það auðvitað þannig að þegar vel gengur í efnahagslífinu þá skilar það sér að sjálfsögðu í jákvæðum áhrifum á ríkissjóð. Þess vegna skiptir máli að hafa augun í sífellu á verðmætasköpun, samkeppnishæfni og skilvirku regluverki til þess einmitt að geta staðið undir því velferðarkerfi sem við viljum öll geta gert.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á frekari orkuöflun, enda þarf það ef við ætlum að byggja landið áfram upp og ná árangri í orkuskiptum. Við ætlum að setja það í forgang að búa þannig um hnútana að hér getum við áfram sótt fram með næga græna orku. Við búum jú á grænu batteríi og það er skynsamlegt, eðlilegt og rétt að framleiða græna orku og út frá verðmætasköpun, efnahagslífinu og öryggi okkar vegna náttúruógna og utanaðkomandi ógna sömuleiðis.

Mikilvægasta utanríkismál Íslands felst í því að standa með Úkraínu gegn tilefnislausri innrás Rússlands. Ólögmætt og tilefnislaust landvinningastríð Rússlands, fastaríkis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, gegn nágrönnum sínum í Evrópu er alvarlegasta aðför að alþjóðalögum sem gerð hefur verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Það er algerlega skýrt að framganga Rússlands í Úkraínu og fyrirætlanir stjórnvalda þar fela í sér ógn sem nær langt út fyrir núverandi stríðsátök og fela í sér djúpstæða ógn við frið, frelsi og farsæld um heim allan, þar á meðal okkur sjálf og í þeim ríkjum sem við lítum á sem nánustu vini og bandamenn. Ef Rússland er ekki stöðvað er hætta á að fleiri ríki falli undir kúgunarvald eða yfirráð Kremlarvaldsins.

Nú þegar allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu hefur staðið í ríflega tvö ár og ekkert lát er á hernaðaruppbyggingu Rússa er ljóst að staðan á sviði varnar- og öryggismála er gjörbreytt til langrar framtíðar. Þessu gera öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sér grein fyrir og hafa brugðist við, bæði hvert og eitt og í sameiningu. Ísland á eins og önnur bandalagsríki að styðja dyggilega við varnarbaráttu úkraínsku þjóðarinnar og í framhaldinu við uppbyggingar-og mannúðarstarf. Þingsályktunartillagan sem liggur fyrir Alþingi sendir skýr skilaboð um langtímastuðning til Úkraínu, þvert á allar pólitískar hreyfingar eða þreifingar hér á Íslandi. Enginn er eyland, ekki einu sinni eyja eins og Ísland. Ísland er einungis eyland í landfræðilegum skilningi en við erum það ekki þegar kemur að skuldbindingum bandalagsríkja til að verja landið né erum við ónæm fyrir því sem er að gerast í kringum okkur. Ísland er mikilvægur hlekkur í varnarkeðju bandalagsins. Það hefur ekki breyst og það mun ekki breytast. Við megum þó aldrei gleyma því að varnarskuldbindingar eru tvíhliða. Við getum ekki skorast undan eigin ábyrgð. Við eigum ekki að skorast undan eigin ábyrgð og við munum ekki gera það á minni vakt í utanríkisráðuneytinu.