154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[12:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það hefur komið fram í máli annarra þingmanna hér að þetta sé kannski ekki einfaldasta regluverkið að setja sig inn í og ég held að það megi til sanns vegar færa um flest það sem snertir fjármálamarkaði sem ratar til okkar í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. Hér erum við komin í enn dýpra fen, myndi ég halda, því þetta er torf sem er erfitt að setja sig inn í.

Mig langar aðeins að nefna í þessu samhengi, vegna þess að af greinargerðinni að dæma þá er ekki alveg ljóst hvort sé verið að boða innleiðingu á evrópsku regluverki sem enn er til skoðunar innan EES-nefndarinnar. Hér undir umfjöllun um tilefni og nauðsyn lagasetningar er fjallað um, hvað köllum við það, svokallaða MiCA-reglugerð, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2023/1114 sem var samþykkt í júní síðastliðnum. Þá náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðsins um MiCA, sem stendur fyrir „Markets in Crypto-Assets“, með leyfi forseta, eða reglugerð um markaði fyrir kryptó-eignir.

Ég veit ekki alveg með hugtakanotkunina, að tala um kryptó-eignir á íslensku er eitthvað sem varð ofan á í skýrslu starfshóps um tækifæri og áhættur á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu sem byggist á dreifðri færsluskrá, sem kom út í apríl á síðasta ári. Þar ákváðu þau að tala um kryptó-eignir, aðallega vegna þess að hugtakið hefði skýra merkingu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í því samhengi vona ég að virðulegur forseti leyfi mér þessa hálfslettu hér í ræðustól. Í þessari skýrslu starfshóps var farið yfir það hvernig er ákveðin tilraun í gangi innan Evrópu sambandsins til að ná að beisla það sem hefur verið kallað villta vestrið á sviði rafmynta. Þetta er óregluvæddur hluti fjármálamarkaðar þar sem vissulega getur verið gengið of langt.

En mig langar að velta upp, vegna þess að hér er í texta greinargerðarinnar vísað til þessarar MiCA-reglugerðar, að það hefur líka verið til umræðu í tengslum við hana, og var gagnrýnt af hluta þingmanna innan Evrópuþingsins, að með MiCA væri gengið lengra en nauðsyn væri í þágu meðalhófs, að til að ná utan um ómennin eða hvað það er sem þarf þegar er verið að temja villta vestrið þá væru löghlýðnir borgarar sviptir ákveðnum hluta fjárhagslegs frelsis síns.

Þetta hefur verið sett í samhengi við þá miklu undiröldu sem er víða um lönd gegn notkun reiðufjár. Það er sótt að möguleikum fólks til að eiga í nafnlausum viðskiptum og jafnframt búinn til ákveðinn aðstöðumunur vegna þess að þær rafrænu greiðsluleiðir sem eru í boði standa ekkert alltaf öllum í samfélaginu til boða, kannski minna vandamál hér á landi en víða annars staðar þar sem efnahagslegur munur á milli þjóðfélagshópa er meiri, en oft er það einfaldlega þannig að fólk getur ekki verið í viðskiptum við fjármálastofnanir, fólk getur ekki átt greiðslukort eða bankareikninga eða hvað það er vegna stöðu sinnar í samfélaginu. Þá þarf fólk að hafa eitthvað til að halla sér að og reiðuféð hefur alltaf verið til staðar, og sýndareyrir, nei, hvað kallaði ég þetta, kryptó-eignir — ég er enn að venjast þessu orði — kryptó-eignir eru einhvers konar millistig á milli rafrænna greiðsluleiða og reiðufjár að því leyti að geta verið í höndum fólks sem notar þetta sem greiðslumáta án þess að skilja eftir sig einhverja mikla slóð. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að verið er að herða reglurnar í kringum kryptó vegna þess að það að svona lítill rekjanleiki sé til staðar veldur því að það er auðvelt að koma háum fjárhæðum á milli fólks í annarlegum tilgangi. Einhvern veginn þarf að ná utan um það en það má ekki skerða möguleika þeirra sem þurfa á þessum úrræðum að halda.

Annað dæmi sem hefur verið nefnt í umræðunni í Brussel eru t.d. stjórnarandstæðingar í ríkjum þar sem lýðræðið er ekki á jafn góðum stað og hér á landi, segjum stjórnarandstæðingar í Belarús eða Rússlandi. Það eru einstaklingar sem stóla mjög mikið á kryptó til að taka við fjárframlögum, stuðningi frá fólki við þeirra réttlætis- og lýðræðisbaráttu, þannig að það er full ástæða til þess að ná einhverjum ramma utan um þetta án þess þó að ganga svo langt að algerlega sé lokað á möguleikann á nafnlausum greiðslum með kryptó.

Þar að auki má velta fyrir sér, eins og við lendum reyndar oft í þegar verið er að gera almennar víðtækar breytingar, hvort sem er á fjarskiptaleynd eða möguleikum fólks til að stunda hluti nafnlaust á internetinu eða í viðskiptum, að þó að yfirlýst markmið sé að koma í veg fyrir einhvers konar glæpsamlega starfsemi þá eru afleiðingarnar oft veigameiri gagnvart þeim sem síst skyldi. Síðan er mjög takmarkaður árangur í því að auka saksókn gegn glæpalýðnum sem ætlað er að ná utan um, peningaþvættisfólkinu og hryðjuverkunum sem eru notuð sem réttlæting fyrir reglubreytingum. Þeir einstaklingar finna aðrar leiðir á meðan löghlýðnir borgarar, oft undirokaðir af slæmum stjórnvöldum, geta borið skarðan hlut frá borði. Ég vænti þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggist yfir þennan þátt málsins, sérstaklega vegna þess að hvað varðar MiCA-reglugerðina er um að ræða reglupakka sem enn er ekki búið að senda til okkar í gegnum EES-samninginn og því mögulegt að skoða kannski með aðeins krítískari augum og jafnvel ef nefndin fyndi sig knúna til þess að senda skilaboð til bandamanna okkar í Brussel sem sjá um þessar samningaviðræður þegar upp er staðið.